Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga vegna höfnunar starfs vegna fjarlægðar felld úr gildi.
Nr. 76 - 2003

 

 

Úrskurður

 

Hinn 22. ágúst 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 76/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta á Norðurlandi vestra ákvað á fundi sínum þann 7. júlí 2003 að A skyldi sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga með vísan til 1. mgr. 13. gr. sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysisbætur nr. 12/1997.  Ákvörðunin var tekin á grundvelli þess að A hefði hafnað atvinnutilboði frá svæðisvinnumiðlun Norðurlands vestra.

 

2.

 

A kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 15. júlí 2003. Í bréfi sínu segist hún búa hjá móður sinni og fjölskyldu í M ásamt 1½ ára dóttur sinni.  Þangað hafi hún flutt eftir sambúðarslit þar sem aðstæður hennar hafi ekki boðið upp á annað og hafði hún í hyggju að koma sér á réttan kjöl.  Henni hafi verið boðið tímabundið starf í um.1 ½ mánuð á B sem sé í um 80 km. fjarlægð frá heimili hennar, eða um 160 km á dag.  Vegna þessarar fjarlægðar og þess hve atvinnan var afskaplega tímabundin, hafi hún ekki séð sér fært að þiggja hana, og ákveðið að halda áfram að leita sé að atvinnu sem hún sæi sér fært að stunda.  Hún sé vakandi fyrir atvinnumöguleikum á H og nágrenni, hún víli ekki fyrir sér að vinna og hún geri það vel.  Hún fer fram á að niðurfelling á bótarétti hennar í 40 daga verði felldur úr gildi, að öðrum kosti verði henni útveguð vinna sem hún sjái sér fært að stunda.

 

3.

 

            Í gögnum málsins liggur fyrir atvinnutilboð dags. 27. júní 2003 frá X.  Um var að ræða tímabundna vinnu út ágúst, vinnutími skyldi vera frá kl. 9-15 virka daga og jafnvel um helgar.  Í tilboðinu segir að A hafi hafnað tilboðinu vegna fjarlægðar frá heimili, hún myndi ekkert græða á því og einnig  væri starfið bara tímabundið. 

 

 

Niður­staða

 

1.

 

Réttur til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 er hvort tveggja háður því að bótaþegi sé atvinnulaus og í atvinnuleit en í síðara skilyrðinu felst að hann geti tekið tilboði um vinnu fyrirvaralaust þegar hún býðst, sbr. 6. tölul. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit bótaþega kemur einnig fram í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir orðrétt:  Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a.         Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

b.         Að vera fullfær til vinnu.

c.         Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.

 

            Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980.  Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. gilda um missi bótaréttar samkvæmt greininni að öðru leyti ákvæði 4. tölul. 5. gr.  laganna.

Í 4. tölulið 5. gr. laganna segir, sbr. 1. mgr. að [...] einstaklingar eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum sem hafa sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju, nema hann sanni að hann hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn.

 

 

2.

 

 Það er hlutverk vinnumiðlunar að miðla til atvinnuleitanda, sem þiggja bætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, störfum sem vinnuveitendur hafa tilkynnt að laus séu. Er gert ráð fyrir því að vinnumiðlun velji af atvinnuleysisskrá þá einstaklinga sem hún telur koma til greina í slík störf. Ákvörðun vinnumiðlunar um að afhenda bótaþega tiltekið atvinnutilboð felur annars vegar í sér það mat vinnumiðlunar að hann teljist hæfur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar til að taka starfinu og hins vegar kvöð á bótaþega að sinna því tilboði án frekari fyrirvara.

 

 

4.

 

Starf það sem kæranda baust  var tímabundið starf í 1½ mánuð. Fram kemur í gögnum málsins að hún er móðir 1½ árs gamals barns.  Starf það sem henni bauðst var í þéttbýliskjarna sem er í um 80 km fjarlægð frá heimili hennar eða um 160 km akstur á dag. Kærandi býr ekki í þéttbýliskjarna, en aðrir þéttbýliskjarnar en sá sem henni var boðið starf á eru mun nær heimili hennar. Að teknu tilliti til ofanritaðs og þess að kærandi er móðir ungabarns er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta kæranda hafi ekki borið skylda til að þiggja umrætt starf. Ákvörðun úrhlutunarnefndar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga er því felld úr gildi.

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Norðurland eystra frá  7. júlí 2003 um að A skuli sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga er felld úr gildi.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Þuríður Jónsdóttir

for­maður

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

 

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni