Ákvörðun um hlutfall bótaréttar sjálfstætt starfandi einstaklings felld úr gildi.
Nr. 66 - 2003
Úrskurður
Hinn 22. ágúst 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 66/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Suðurland samþykkti á fundi sínum þann 11. júlí 2003 umsókn A um atvinnuleysisbætur. Jafnframt ákvað nefndin að hlutfall bótaréttar A væri 64%. Samkvæmt bréfi úrhlutunarnefndarinnar var umsókn A metin sem umsókn sjálfstætt starfandi einstaklings og bótahlutfall hans reiknað samkvæmt rgl. 316/2003 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga. Við útreikning var tekið mið af skilum tryggingagjalds.
2.
A kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi, dags. 15. júlí 2003. Í bréfi sínu segir hann að kvörtun sín beinist að skerðingu atvinnuleysisbóta hans niður í 64%. Hann hafi rekið fyrirtæki sem hafi átt við rekstrarvanda allt frá byrjun. Því hafi hann ekki haft önnur úrræði en að greiða sér lágmarkslaun. Þau úrræði hafi þó ekki dugað og rekstrarskuldir hafi hlaðist upp. Fyrirtækinu hafi svo að segja verið sjálflokað þótt um gjaldþrot hafi ekki verið að ræða. Fyrirtækið hafi staðið í skilum með allt tryggingagjald hans. Einnig hafi á vegum fyrirtækisins verið skilað inn vinnuveitandavottorði vegna hans sem hann telji að ekki hafi verið tekið tillit til. Hann telji að um stjórnarskrárbrot sé að ræða.
3.
Bæði þeir sem teljast sjálfstætt starfandi einstaklingar samkvæmt rgl. 316/2003 og 317/2003 svo og einstaklingar sem vinna við eigin atvinnurekstur, hvort sem um er að ræða starf á vegum sameignarfélags, einkahlutafélags eða hlutafélags eða á vegum tengdra félaga (dótturfélaga, hlutdeildarfélaga) og hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, skulu reikna sér endurgjald samkvæmt reglum fjármálaráðherra um reiknað endurgjald, nú reglur nr. 7/2003.
4.
Í gögnum málsins kemur fram að A hefur verið rekstraraðili og starfsmaður X ehf. í Vestmannaeyjum. Fram kemur að rekstrinum hefur verið hætt og var tilkynning um stöðvun rekstrar tilkynnt til launagreiðendaskrár svo lokun virðisaukaskattnúmera. Lok rekstrar voru sögð 1. maí s.l. Samkvæmt staðfestingu frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 19. ágúst 2003 kemur fram að A er í skilum með allt tryggingagjald vegna X ehf. Í útskrift ríkisskattstjóra kemur fram að A skuldar enga staðgreiðslu miðað við 4. júlí 2003.
Samkvæmt viðmiðunarreglum fjármálaráðherra var reiknað endurgjald fyrir sambærilega starfsemi og þá sem A stundaði kr. 270.000 á mánuði árið 2003 og kr. 250.000 á árinu 2002. Fram kemur að A fékk heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald þar sem reksturinn stóð ekki undir hærra endurgjaldi. Fékk hann heimild til að reikna sér kr. 65.000 á mánuði frá ágúst 2002 þar til hann hætti rekstri og hafði áður reiknað sér kr. 110.000 á mánuði. Samkvæmt vinnuveitandavottorði mótteknu hjá svæðisvinnumiðlun dags. 18. júní 2003 var A í 100% starfshlutfalli hjá X ehf. þar til fyrirtækið hætti starfsemi.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna eiga þeir rétt til bóta sem hafa á síðustu tólf mánuðum unnið samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingasjaldskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði.
2.
Samkvæmt 5. gr. reglugerðar um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 316/2003 telst sjálfstætt starfandi einstaklingur vera í fullu starfi ef hann greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfgrein. Samkvæmt 6. gr. telst einstaklingur vera í hlutastarfi ef hann greiðir staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein. Starfshlutfall hans ákvarðast af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sjóðfélaga og viðmiðunarfjárhæðar.
3.
Samkvæmt auglýsingu frá ríkisskattstjóra nr. 4/2002 um reiknað endurgjald 2002 fellur starfsemi kæranda undir flokk B(4), þ.e. starfsemi manna sem starfa við hvers konar verslun og viðskipti og greiða laun sem samsvara minna en árslaunum 2 starfsmanna. Reiknað endurgjald við starfsemi í flokki B(4) var á árinu 2002 kr. 250.000 á mánuði. Kærandi reiknaði sér kr. fyrst 110.000 í endurgjald á mánuði á árinu 2002 samkvæmt heimild skattstjóra og síðan kr. 65.000 á mánuði þar til rekstri var hætt og stóð í skilum með tryggingagjald og staðgreiðslu vegna þeirrar fjárhæðar. Samkvæmt auglýsingu fjármálaráðherra nr. 7/2003 var viðmiðunarfjárhæðin á árinu 2003 kr. 270.000. Þrátt fyrir lægra reiknað endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir fjármálaráðherra segja til um var kærandi í fullu starfi þennan tíma. Einnig kemur fram að kærandi stóð í skilum með álagt tryggingagjald á árinu 2001.
Skattstjóri heimilar einstaklingi sem fellur undir reglur um reiknað endurgjald að reikna sér lægra endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir kveða á um ef tekjur af rekstrinum standa ekki undir hærra endurgjaldi. Samkvæmt upplýsingum skattstjóra er fylgst með því við skil rekstrarreiknings tekjuársins að rekstrartekjur hafi verið í samræmi við veitta lækkunarheimild.
4.
Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að ef einstaklingur fær heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir fjármálaráðherra segja til um vegna þess að rekstur stendur ekki undir hærri tekjum, þá beri að líta svo á að einstaklingurinn hafi verið í því starfshlutfalli sem hann raunverulega var í þrátt fyrir reiknireglur 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 316/2003. Enda segir í 4. tölul. 2. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar einungis að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði. Ekki er áskilið að miða skuli við viðmiðunarfjárhæðir skv. reglum fjármálaráðherra, allt eins virðist mega miða við það endurgjald sem einstaklingur fær heimild til að reikna sér. Ástæða þess að rekstur er stöðvaður er venjulega sú að reksturinn stendur ekki undir sér. Ferillinn er venjulega sá að við samdrátt í rekstri fær rekstraraðili heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir segja til um. Þetta ástand stendur venjulega yfir í fleiri mánuði, jafnvel ár, áður en rekstur er endanlega stöðvaður. Einstaklingur stöðvar venjulega ekki rekstur á meðan hann skilar arði og stendur undir fullu reiknuðu endurgjaldi samkvæmt viðmiðunarreglum fjármálaráðherra. Loks þegar rekstur er stöðvaður þá væri hann samkvæmt reiknireglu 5. og 6. gr. rgl. 316/2003 talinn hafa að vera í hlutastarfi til lengri tíma án tillits til raunverulegs starfshlutfalls hans með þeim afleiðingum að hlutfall bótaréttar hans hefur lækkað verulega. Í tilviki kæranda sem fékk heimild til að reikna sér kr. fyrst 110.000 á mánuði og síðan 65.000 á mánuði í stað kr. í stað annars vegar kr. 250.000 og hins vegar 270.000 þá væri hlutfall bótaréttar hans verulega skert ef miðað væri við viðmiðunarfjárhæðir fjármálaráðherra sem lágmark. Kærandi þurfti að lækka laun sín vegna samdráttar í rekstrartekjum þrátt fyrir það að væri í fullri vinnu. Bótaréttur annarra launþega taka aftur á móti ekkert mið af launum þeirra. Þetta þykir úrskurðarnefndinni fara í bága við jafnræðisreglu sem almennt gildir í íslenskum rétti sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þó er það mat úrskurðarnefndarinnar að ef reiknað endurgjald er undir ákveðnu lágmarki sé ekki hægt að miða við 100% starfshlutfall. Á meðan ekki hefur verið sett í reglugerð ákveðið lágmark samkvæmt þessu telur úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta eðlilegt að miða við greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins hverju sinni til ellilífeyrisþega sem búa einir og eru tekjulausir að öðru leyti Samkvæmt útreikningi Tryggingastofnunar er fjárhæð þessi miðað við árið 2003 kr. 94.090 á mánuði, árið 2002 kr. var hún 86.053 og árið 2001 var hún 79.312 á mánuði. Ef heimild hefur fengist til lækkunar reiknaðs endurgjalds umfram þessar fjárhæðir þá lækkar starfshlutfallið sem því nemur. Einnig telst einstaklingur vera í hlutastarfi ef fyrir liggja upplýsingar um það að öðru leyti.
5.
Samkvæmt vinnuveitandavottorði og öðrum upplýsingum sem liggja fyrir í málinu var kærandi í 100% starfshlutfalli þrátt fyrir að hafa reiknað sér lægra endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir skattyfirvalda segja til um. Viðmiðunartímabil bótaréttar er sem áður segir tólf mánuðir fyrir skráningu hjá vinnumiðlun sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. rgl. nr. 740/1997 að teknu tilliti til 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um geymdan bótarétt. Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar um 64% bótahlutfall kæranda og er málið sent úthlutunarnefndinni til endurákvörðunar samkvæmt ofangreindu.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Suðurland frá 11. júlí 2003 um 64% bótarétt A er felld úr gildi og málið sent úthlutunarnefndinni til endurákvörðunar.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Þuríður Jónsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka