Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadga vegna fjarveru frá starfsleitrnámskiði staðfest.
Nr. 69 - 2003

Úrskurður

 

Hinn 22. ágúst 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 69/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

            Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 16. júní 2003, að réttur A til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga á grundvelli 1. mgr. 12. gr. sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.  Vísað var til upplýsinga vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins um fjarvist A frá starfsleitarnámskeiði.

 

2.

 

            Ákvörðun úthlutunarnefndarinnar var kærð með bréfi Láru V. Júlíusdóttur hdl . f.h. A með bréfi dags. 24. júlí 2003.  Í bréfinu segir Lára að umbjóðandi sinn hafi verið atvinnulaus í á annað ár.  Hann hafi tekið þátt í námskeiði á vegum vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins, starfsleit 3, sem haldið var 7. og 8. apríl s.l.  Hann hafi mætt fyrri daginn, en síðari daginn varð hann fyrir því óhappi á leið á námskeiðið að bifreið hans varð bensínlaus og varð hann að skilja hana eftir og ganga heim.  Hann hafi verið peningalaus, hafi hvorki getað keypt bensín tekið leigubíl né strætisvagn.  Honum hafi láðst að láta vita um óhappið til námskeiðshaldara.  Það hafi ekki verið fyrr en um kvöldið að hann hafi getað náð til aðstandenda og fengið aðstoð vegna bílsins.  Lára segir að vegna þessa hafi umbjóðandi sin verið sviptur bótarétti í 40 bótadaga með vísan til 1. mgr. 12. gr. sbr. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997,  þar sem segir að samkvæmt ákvörðun úthlutunarnefndar geti það valdið missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum svæðisvinnumiðlunar eða fylgir ekki slíkri áætlun, þar á meðal hafnar úrræðum svæðisvinnumiðlunar skv. e-lið 1. mgr. 10. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir.   Í bréfinu segir Lára ennfremur að umbjóðandi hennar mótmæli því að hann hafi ekki tekið þátt í gerð starfsleitaráætlunar né fylgt slíkri áætlun eða hafnað úrræðum svæðisvinnumiðlunar.  Hann hafi tekið þátt í ofangreindu námskeiði og mætt fyrri daginn af tveimur sem námskeiðið stóð.  Ófyrirsjáanlegar aðstæður hafi valdið því að hann komst ekki seinni daginn, aðstæður sem honum hafi verið ofviða að leysa eins og þá var ástatt fyrir honum.  Hefði hann skilað inn læknisvottorði í stað þess að greina frá tilvikinu þá hefðu bætur ekki verið skertar.  Væntanlega hefðu flestir læknar getað vottað að maðurinn hafi verið miður sín og því óvinnufær, segir ennfremur í bréfinu.  Hann hafi reglulega skráð sig atvinnulausan og í einu og öllu farið að fyrirmælum vinnumiðlunar ef þetta eina dæmi sé undanskilið.

            Lára segir að í tilvitnaðri lagagrein sé það sett í vald úthlutunarnefnda að ákveða hvort samstarfstregða atvinnulauss einstaklings við svæðisvinnumiðlun eigi að leiða til missis bótaréttar eða ekki.  Það sé því ekki fortakslaust í hvert skipti sem einhver slík atvik komi upp að þau leiði til missis bótaréttar.  Þótt umrætt atvik verði almennt ekki talin gild frávera frá starfi á almennum vinnumarkaði, segir í bréfi Láru, þá verði yfirvöld sem taka ákvörðun um úthlutun atvinnuleysisbóta að taka mið af þeim aðstæðum sem einstaklingar sem búa við langvarandi atvinnuleysis búa við.  Slíkir einstaklingar verði gjarnan sinnulausir og þjást af þunglyndi auk þess sem bágur fjárhagur og það að vera stöðugt upp á aðra kominn móti mjög allt líf þeirra.  Það að setja mann á 40 daga bið vegna þess að honum láist að tilkynna um forföll í einn dag sé óeðlilega mikil refsing.  Ofan á þá erfiðleika sem því fylgir almennt að vera án vinnu eru menn auðmýktir með svo ströngum viðurlögum og sviptir framfærslu í einn og hálfan mánuð.  Þá segir að staðfesting sambýliskonu umbjóðanda hennar um atvik þetta fylgi með og er þess að lokum krafist að ákvörðun úthlutunarnefndar verði breytt og að umbjóðandi hennar fái óskertar bætur.

 

3.

 

            Í bréfi vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins til úthlutunarnefndar dags. 5. júní s.l. segir að Starfsleit 3, námskeið í starfsleit, hafi hafist 7. apríl og lokið 8. apríl s.l.   Við boðun á námskeiðið hafi þátttakendum verið gerð grein fyrir því að um mætingaskyldu væri að ræða.  Einn boðaðra þátttakenda, A mætti fyrri dag námskeiðs, en var fjarverandi seinni daginn (8. apríl).   Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins sendi A bréf vegna þessa dags. 23. maí s.l. þar sem honum var tilkynnt að mál hans yrði tekið fyrir á fundi úthlutunarnefndar þann 6. júní.  Honum var einnig tjáð að ef hann vildi koma á framfæri skýringum, svo sem vottorði, vegna fjarvistanna, þá væri hann vinsamlegast beðinn að koma þeim til ráðgjafa fyrir 5. júní.  Einnig liggur fyrir  í málinu boðunarbréf  til A á Starfsleit 3, námskeið í starfsleit, dags. 2. apríl 2003, sem A hefur samþykkt að mæta á með undirritun sinni og kvittað fyrir móttöku á.  Í bréfinu er tekin fram dagsetning námskeiðsins (7. og 8. apríl), tímasetning (kl. 9-12 fyrir hádegi) og staðsetning (Engjateigur 11, herbergi 004).   Í bréfinu segir með feitu letri að það geti valdið missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum svæðisvinnumiðlunar eða fylgir ekki slíkri áætlun, þar á meðal hafnar úrræðum svæðisvinnumiðlunar.  Ítrekað er mikilvægi þess að þátttakendur mæti á námskeiðið og að forföll verði að tilkynna.

 


Niður­staða

 

1.

 

Í IV. kafla reglugerðar nr. 670/1998 um vinnumarkaðsaðgerðir er kveðið á um skyldur atvinnuleitanda samkvæmt starfsleitaráætlun. Í 13. gr. segir að markmið með gerð starfsleitaráætlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, sé að aðstoða atvinnuleitanda við að finna starf við sitt hæfi. Skal starfsleitaráætlun vera með þeim hætti að þegar atvinnuleitandinn fylgir henni aukist líkur hans á að fá vinnu.  Samkvæmt 16. gr. reglugerðarinnar skal atvinnuleitandi sem er með samþykkta starfsleitaráætlun vera reiðubúinn að taka tilboði um atvinnu þegar hún býðst ef hann er ekki í sérstökum úrræðum samkvæmt starfsleitaráætlun.  Skylda þessi nær einnig til þess að taka þátt í námskeiðum sem hann er boðaður á af svæðisvinnumiðlun.  Í 14. gr. segir að samkomulag um starfsleitaráætlun skuli útfæra sem skriflegan samning milli aðila. 

 

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 getur það valdið missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum svæðisvinnumiðlunar eða fylgir ekki slíkri áætlun, þar á meðal hafnar úrræðum svæðisvinnumiðlunar um nám eða starfsþjálfun skv. e-lið 1. mgr. 10. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Um missi bótaréttar gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

2.

 

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi mætti einungis fyrri daginn af tveggja daga námskeiði sem hann hafði verið boðaður á og hann hafði samþykkt að mæta á. Í boðunarbréfinu, sem kærandi undirritaði við móttöku þann 2. apríl 2003, segir með breiðu letri að ef ekki er fylgt starfsleitaráætlun geti það varðað missi bótaréttar.   Kærandi segist hafa orðið bensínlaus og gefur upp peningaleysi sem ástæðu forfalla sinna.  Hann gefur þó ekki viðhlýtandi skýringu á því hvers vegna hann lét ekki vita um forföll sín né fól öðrum að tilkynna forföll fyrir sína hönd.  Hann skilaði heldur ekki vottorði sem skýrt hefði getað forföll hans þrátt fyrir áskorun svæðisvinnumiðlunar þar um.  Að mati úrskurðarnefndar teljast ástæður þær sem kærandi gefur því ekki  gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysisbætur nr. 12/1997 og ber því að staðfesta ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga.

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 16. júní 2003 um að A skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 40 bóta­daga með vísan til 1. mgr. 12. gr. sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Þuríður Jónsdóttir

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

 

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni