Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Segir upp starfi án gildra ástæðna. Staðfest.
Nr. 1 - 2004

 

 

Úrskurður

 

Hinn 23. janúar 2004 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 1/2004.

 

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Úthlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta á Austurlandi samþykkti á fundi sínum þann 19. desember 2003 umsókn B, um atvinnuleysisbætur frá 28. nóvember 2003.  Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 3. desember 2003 um starfslok hans hjá X h.f. var réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar nr. 12/1997, sem kveður á um það að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna, skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga.   

 

2.

 

B kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 24. desember 2003.  Í bréfinu segist hann telja sig hafa haft fullgildar ástæður til að segja upp starfi sínu.  Starf hans hjá fyrirtækinu var að stjórna vinnuvélum og skilyrði fyrir réttindum á vinnuvélar sé að hafa gilt ökuleyfi.  Það hafi ekki lengur verið til staðar og hann hafi því talið eðlilegt í framhaldi af því að segja starfi sínu lausu.  Í bréfi B til Svæðisvinnumiðlunar Austurlands dags. 12. desember 2003 kemur einnig fram að hann hafi orðið fyrir því óláni að missa ökuleyfi nýverið.  Því hafi hann sagt upp starfi sínu, bæði vegna þess að ökuréttindi hans voru ekki lengur gild og einnig hefði það verið afar erfitt fyrir hann að komast á milli án ökuréttinda, þar sem vinnustaður hans var í Mosfellsbæ en heimili hans í Reykjavík.   Í framhaldi af þessu tók hann þá ákvörðun að flytja austur á Y, því hann taldi víst að hann fengi vinnu auk þess sem auðveldara væri að komast þar á milli en á höfuðborgarsvæðinu.  Í bréfi til Svæðisvinnumiðlunar dags. 17. desember s.l. kemur einnig fram að hann hafi hætt námi á miðri haustönn í Z-skóla 2003.  Ástæða þess að hann hætti náminu segir hann hafa verið peningaleysi.  Samkvæmt  vottorði frá Z-skóla var B skráður nemandi á haustönn 2003 frá 22. ágúst 2003.  Hann sagði sig úr námi þann 27. október s.á. en samkvæmt upplýsingum frá skólanum lauk haustönn þann 19. desember 2003.

 

3.

 

            Haft var samband við verkstjóra hjá X h.f.  Samkvæmt upplýsingum hans hætti B skyndilega að mæta í vinnu án þess að láta vita af sér og var ekki hægt að ná í hann fyrr en að hálfum mánuði liðnum.  Þá hafi hann sagst ætla að koma aftur til vinnu hjá fyrirtækinu.  Það hafi hann þó ekki gert.  Honum hafi ekki verið sagt upp störfum, hann hafi einfaldlega farið án skýringa.

 

 

Niður­staða

 

1.

 

Sam­kvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bóta­réttar í 40 bóta­daga ef um­sækjandi um at­vinnu­leysis­bætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna.  Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglu­gerð nr. 545/1997 um greiðslu at­vinnu­leysis­bóta en þar segir:  Ef um­sækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar, séu starfs­lok til­komin vegna einhverra eftir­talinna at­vika:

a.         Maki um­sækjanda hafi farið til starfa í öðrum lands­hluta og fjöl­skyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja bú­ferlum.

b.         Upp­sögn má rekja til þess að um­sækjandi, að öðru leyti vinnu­fær, hefur af heilsu­fars­á­st­æðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því til­skildu að vinnu­veitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ást­æður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknis­vott­orði þessu til stað­festingar.

Kjósi út­hlutunar­nefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar í öðrum til­vikum en að ofan greinir, skal hún til­taka sér­stak­lega í ákvörðun sinni þau at­vik og sjónar­mið sem ákvörðun byggist á.

 

Þá segir í 5. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar, að þeir skuli ekki eiga rétt á at­vinnu­leysis­bótum sem hætta námi fyrir lok nám­s­annar. Í ákvæði þessu er kveðið á um að stjórn At­vinnu­leysis­trygginga­sjóðs sé heimilt að setja reglur um, að þeir sem hætta námi fyrir lok nám­s­annar skuli undir sér­stökum kring­um­stæðum eiga bóta­rétt. Kveðið er á um slíka undan­þágu í 6. gr. reglu­gerðar um greiðslu at­vinnu­leysis­bóta nr. 545/1997, en þar segir orð­rétt:

Ef náms­maður sem hefur áunnið sér rétt til bóta hverfur frá námi á hann ekki rétt til bóta þann tíma sem eftir stendur af nám­s­önn.

Út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta er þó heimilt að veita undan­þágu frá þessu, ef veru­leg breyting hefur orðið á fjöl­skyldu­högum eða fjár­hags­stöðu sem valdið hafa því að hann hætti námi, sbr. 5. tl. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar.

Að mati úr­skurð­ar­n­efndar at­vinnu­leysis­bóta ber að túlka framan­greint ákvæði sam­kvæmt orðanna hljóðan á þá vegu að viður­lögum sam­kvæmt því verði að­eins beitt þegar um­sækjandi um at­vinnu­leysis­bætur hættir á nám­s­önn. Hafi hann lokið nám­s­önn og sæki þá fyrst um at­vinnu­leysis­bætur á ákvæðið ekki við. Þá verður ákvæði 5. gr. áður­nefndrar reglu­gerðar um greiðslu at­vinnu­leysis­bóta, ekki beitt um þá einstaklinga sem stunda nám utan venju­legs dag­vinnu­tíma.

 

 

 

2.

 

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast ástæður þær sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi missti ökuréttindi sín af ástæðum sem hann sjálfur átti sök á.  Honum var ekki sagt upp störfum heldur lét hann sig hverfa án skýringa.  Honum stóð til boða að starfa áfram hjá fyrirtækinu og sagðist myndi koma aftur til starfa en lét ekki heyra frá sér aftur. Þó kærandi hafi flutt búferlum í annan landshluta eftir að hann missti ökuréttindi sín þá er það mat úrskurðarnefndar að tilvik kæranda falli ekki undir undantekningarákvæði 7. gr. reglu­gerðar nr. 545/1997 um greiðslu at­vinnu­leysis­bóta. Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta á Austurlandi um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 staðfest.

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta á Austurlandi frá 19. desember 2003 um niðurfellingu bótaréttar B í 40 bótadaga skv. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                Benedikt Davíðs­son

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni