Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Mætir ekki á boðaða starfsleitarfundi. Staðfest.
Nr. 2 - 2004

Úrskurður

 

Hinn 23. janúar 2004 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 2/2004.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

            Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta á Austurlandi ákvað á fundi sínum þann 10. desember 2003, að réttur A, til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga á grundvelli 1. mgr. 12. gr. sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.   Vísað var til upplýsinga frá Svæðisvinnumiðlun Austurlands um að A hefði ekki sinnt boðun um að koma á starfsleitarfund til að gera starfsleitaráætlun.

 

2.

 

            A kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi sem er skrifað fyrir hennar hönd dags. 15. janúar 2004.    Í bréfinu segir að verkalýðsfélagið á staðnum hafi ritað bréf til Svæðisvinnumiðlunar Austurlands þar sem tilgreindar eru ástæður þess að A mætti ekki á starfleitarfundi.  Samkvæmt bréfinu mætti ætla að A sé yfirmáta kærulaus eða alveg sama.  Þetta sé þó alls ekki rétt.  A sé ein af þeim fjölmörgu sem hefur unnið ákveðið starf mestan hluta lífs síns, lendir síðan í niðurskurði á vinnustað, tapar vinnunni og fær enga aðra vinnu.  Hún vilji svo sannarlega vinna.  Hún sé mjög dugleg kona en geti ekki unnið við hvað sem er.  Þetta gæti hafa haft áhrif á að hún tilkynnti ekki forföll á námskeiðið þann 24. febrúar 2003.  Ef henni byðist vinna er enginn vafi á að hún myndi taka henni.  Hún búi tvo km. fyrir utan X og hjólar á milli daglega í von um að vá vinnu.  Mánudaginn 17. nóvember s.l. var hún veik, reyndi að hringja tvisvar austur, en náði ekki sambandi. Það var á tali og hún gleymdi að gera meira í því.  Í framtíðinni muni hún mæta á starfleitarfundi nema einhver afsakanleg forföll komi upp.  Í ljósi aðstæðna er beðið er um endurskoðun á máli A.

 

 

 

 

3.

 

            Í málinu liggja fyrir fjórar boðanir í starfsleitarúrræði hjá Svæðisvinnumiðlun Austurlands.  Fyrsta boðunin er í viðtal dags. 10. október 2002.  Fram kemur að A boðaði forföll vegna veikinda.  Annað viðtalið sem hún var boðuð í var haldið þann  11. desember 2002 og á það er eingöngu ritað að hún hafi ekki mætt.  Síðan var hún boðuð á starfsleitarnámskeiðið Hér stend é, hvert stefni ég þann 24. febrúar 2003.  Í bréfinu segir að A hafi ekki mætt og ekki gefið skýringar á fjarveru sinnu.  Fjórða boðunarbréfið er í starfsleitarviðtal dags. 17. nóvember 2003.  Sagt er að hún hafi ekki mætt og ekki látið vita.  Í öllum þessum boðunarbréfum er þess getið að mikilvægt sé að atvinnuleitandi mæti í viðtalið og að fjarvist geti valdið missi bótaréttar ef atvinnuleitandi boði ekki forföll og tilgreini ástæðu fjarvistar.  Í bréfi úthlutunarnefndar dags. 26. nóvember 2003 er A gefinn kostur á að útskýra fjarvistir sínar skriflega.  Í bréfi A til Svæðisvinnumiðlunar Austurlands dags. 3. desember 2003 segir hún, að því sé til að svara að þann 8. október 2002 hafi hún verið veik og boðað forföll,  þann 11. desember 2002 gleymdi hún að mæta, þann 24. febrúar 2003 taldi hún námskeiðið ekki höfða til sín og þann 17. nóvember s.l. var hún veik og gleymdi viðtalinu.  Einnig kveðst hún munu standa sig betur í framtíðinni og mæta í boðuð viðtöl nema lögmæt forföll hamli.

 

Niður­staða

 

1.

 

Í IV. kafla reglugerðar nr. 670/1998 um vinnumarkaðsaðgerðir er kveðið á um skyldur atvinnuleitanda samkvæmt starfsleitaráætlun. Í 13. gr. segir að markmið með gerð starfsleitaráætlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, sé að aðstoða atvinnuleitanda við að finna starf við sitt hæfi. Skal starfsleitaráætlun vera með þeim hætti að þegar atvinnuleitandinn fylgir henni aukist líkur hans á að fá vinnu.  Samkvæmt 16. gr. reglugerðarinnar skal atvinnuleitandi sem er með samþykkta starfsleitaráætlun vera reiðubúinn að taka tilboði um atvinnu þegar hún býðst ef hann er ekki í sérstökum úrræðum samkvæmt starfsleitaráætlun.  Skylda þessi nær einnig til þess að taka þátt í námskeiðum sem hann er boðaður á af svæðisvinnumiðlun.  Í 14. gr. segir að samkomulag um starfsleitaráætlun skuli útfæra sem skriflegan samning milli aðila. 

 

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 getur það valdið missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum svæðisvinnumiðlunar eða fylgir ekki slíkri áætlun, þar á meðal hafnar úrræðum svæðisvinnumiðlunar um nám eða starfsþjálfun skv. e. lið 1. mgr. 10. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Um missi bótaréttar gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

2.

 

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi mætti ítrekað ekki í boðuð starfsleitarúrræði og aðeins í eitt skipti boðaði hún forföll.  Í öllum boðunarbréfum til atvinnuleitenda segir með breiðu letri, að ef ekki er fylgt starfsleitaráætlun geti það varðað missi bótaréttar og að forföll þurfi að boða með fyrirvara.   Engar viðhlítandi skýringar liggja fyrir af hálfu kæranda um ástæður fjarvista.  Ýmist gleymdi hann að tilkynna forföll, gleymdi boðuðum fundi eða að námskeið höfðaði ekki til hans.  Að mati úrskurðarnefndar  atvinnuleysisbóta teljast ástæður kæranda ekki gildar í skilningi 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 og ber því að staðfesta ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta á Austurlandi um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga.

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta á Austurlandi frá 10. desember 2003 um að A skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 40 bóta­daga með vísan til  12. gr. sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggngar er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

 

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni