Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Hafnar starfstilboði. Segir fyrirtæki ekki traustvekjandi. Ákvörðun staðfest.
Nr. 3 - 2004

 

Úrskurður

 

Hinn 23. janúar  2004 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 3/2004.

 

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Úthlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 15. október 2003 að réttur Y skyldi felldur niður í 40 bótadaga.  Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli 1. mgr. 13. gr., sbr.  4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar nr. 12/1997, þar sem kveðið er á um að það valdi missi bótaréttar í 40 bótadaga að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að Y hafnaði vinnutilboði frá  R.  Í bréfi úthlutunarnefndar dags. 15. október segir að samkvæmt upplýsingum frá Vinnumiðlun hafni Y starfinu vegna þess að honum finnist launin of lág og fyrirtækið lítt traustvekjandi.  Úthlutunarnefndin tók mál Y aftur fyrir á fundi sínum þann 11. nóvember og staðfesti fyrri ákvörðun sína.

 

2.

Y kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi mótteknu 19. janúar 2004.  Í bréfinu segist hann hafa upplýsingar sem sýni að fyrirtækið sé lítt traustvekjandi.  Þessar upplýsingar voru gefnar munnlega og sem trúnaðarmál og þegar úthlutunarnefnd falaðist eftir að fá þær skriflega hafi hann hafnað því.  Hins vegar hefði verið lítið mál fyrir fulltrúa VR að kanna sannleiksgildi þessara upplýsinga.  Nefndin svari engu þeirri ásökun um að þeim beri að kanna traustverðuleika þeirra fyrirtækja sem þeir þrýsti á fólk til að taka störf hjá.  Nefndin taki heldur ekki tillit til þess grundvallarréttar hvers manns að semja um starfskjör sín og þá jafnframt að hafna starfi ef kjör eru ekki í samræmi við lágmarkskjör stéttarfélagssamninga. Í bréfi dags. 28. október s.l. segir hann að þessi atvinnurekandi hafi ekki greitt nein félagstengd gjöld til stéttarfélags, þ.e. Verslunarmannafélags Hafnarfjarðar, á þeim tíma sem starf þetta var í boði.  Einnig að samkvæmt upplýsingum frá Lífeyrissjóði Verslunarmanna greiði R engin gjöld í lífeyrissjóð hjá þeim og að það myndi flokkast sem lögbrot.  Varðandi vinnutíma og laun segir hann að atvinnurekandinn hafi ætlast til þess að hann ynni 5 daga vikunnar frá kl. 10 til 18.  Einnig átti hann að ræsta  eftir vinnutíma í um það bil 30 mínútur til klukkutíma á eftir, auk þess að vinna alla laugardaga.  Þessu til viðbótar átti hann að vera eini starfsmaður verslunarinnar sem þýddi í raun að hann væri launþegi starfandi sem verslunarstjóri með allri þeirri ábyrgð sem því fylgdi, svo sem uppgjöri og fleiru eftir venjulegan vinnutíma.  Ef starfsmaður er einn í versluninni og enginn til að leysa hann af  ættu allir matar- og kaffitímar að vera greiddir.  Fyrir alla þessa vinnu bauð verslunareigandinn aðeins kr. 120.000 mánaðarlaun.  Lágmarkslaun fyrir 36,35 tíma vinnuviku hjá 21 árs gömlum verslunarmanni séu samkvæmt kjarasamningum kr. 93.858 á mánuð og fullyrðir Y að framkomið atvinnutilboð feli í sér laun undir lágmarkslaunum og því brot á kjarasamningum. Einnig segist hann hafa gert þá athugasemd að niðurfelling atvinnuleysisbóta bóta skuli hefjast áður en úrskurður sé kveðinn upp.  Slíkt gæti e.t.v. átt við um hættulegan afbrotamann, en hann líti ekki á sig sem slíkan.  Að lokum segir í bréfi Y að verslunin R starfi ekki lengur.

 

3.

            Í gögnum málsins kemur fram að Y fékk  tilboð um vinnu við verslunina R sem hann hafnaði.  Haft var samband við verslunareigandann sem sagði að eftir áramót hafi hann engan starfskraft haft í versluninni.  Hann hafi reynt að vera þar sjálfur og hafa opið kl. 16 til 18, en hann sé í öðrum verkefnum svo það sé erfitt.  Hann geti ekki ráðið óvanan mann þar sem starfsmaðurinn yrði að geta unnið sjálfstætt.  Hann segist hafa rekið þessa verslun í mörg ár og um leið og leysist úr starfsmannamálum verði verslunin opin á venjulegum verslunartíma.  Hvað varðar greiðslu á stéttarfélagsgjöldum segir hann það hafa farið eftir vilja starfsmanna, síðasti starfsmaður vildi greiða stéttarfélagsgjald og hafi það verið gert, en svo hafi verið aðrir sem ekki vildu greiða í stéttarfélag.  Hvað varði greiðslu lífeyrisiðgjalda segir hann að þau hafi verið greidd.  Haft var samband við embætti ríkisskattstjóra sem staðfesti að staðgreiðslu hafi verið skilað reglulega af starfsfólki fyrirtækisins.  Launamiðum hafi þó stundum verið skilað stopult.  Við ársuppgjör er gerður samanburður á skilum lífeyrisiðgjalda og virðast þau hafa verið í lagi í þessu fyrirtæki.    Haft var samband við starfsmann VR sem taldi að launin sem boðin voru væru reyndar ekki há en samt yfir lágmarkslaunum fyrir sambærilegt starf.  Starfsmaður Verslunarmannafélags Hafnarfjarðar staðfesti að mikil mannaskipti hafi verið í versluninni á undanförnum árum.  Einhverjir starfsmenn hafi greitt stéttarfélagsgjald en honum sýndist að þeir sem það vildu þyrftu að sækja það fast.

 

 

 

 

Niður­staða

 

1.

Réttur til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 er hvort tveggja háður því að bótaþegi sé atvinnulaus og í atvinnuleit.  Í síðara skilyrðinu felst að hann geti tekið tilboði um vinnu fyrirvaralaust þegar hún býðst.  Yfirlýsing bótaþega um að hann hafni tilboði um vinnu hefur þau áhrif að hann telst ekki uppfylla skilyrði bótaréttar samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr., sbr. og 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. 

Samkvæmt 1. gr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980.  5. mgr. 13. gr. kveður á um að ákvæði 4. tölul. 5. gr. gildi að öðru leyti um missi bótaréttar samkvæmt greininni.

 

2.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast þær ástæður sem kærandi gefur fyrir höfnun á starfstilboði því sem hann fékk fyrir milligöngu Vinnumiðlunar ekki gildar í skilningi 13. gr. sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.   Við mat á hvort höfnun vinnutilboðs leiði til missis bótaréttar er kannað hvort sú vinna sem bótaþega stóð til boða hafi verið heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við gildandi kjarasamninga.  Einnig er kannað hvort bótaþegi, að öðru leyti vinnufær, búi yfir þeirri menntun og/eða fyrri starfsreynslu sem vinnuveitandi gerir kröfu um. Uppfylli hinn atvinnulausi þessi almennu skilyrði er hafni engu að síður tilboði um vinnu leiðir það almennt til þess að viðkomandi missir rétt til atvinnuleysisbóta. Kærandi hefur ekki komið með fullnægjandi rök fyrir því að vinna sú sem honum var boðin uppfylli ekki skilyrði 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, þ.e. að hún sé heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980. Fremur virðist vera um óljósar og ósannaðar grunsemdir að ræða.  Hvað varðar tímasetningu framkvæmdar niðurfellingar bóta vegna höfnunar starfs þá er aðalreglan sú að hún hefjist á þeim degi sem starfi er hafnað.  Niðurfelling bóta getur þó dregist ef dregst að leggja gögn fyrir úthlutunarnefndina. Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, staðfest.

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 15. október 2003 um að Y skuli sæta missi bótaréttar í 40 bótadaga samkvæmt 1. mgr. 13. gr. sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                             Benedikt Davíðs­son

 

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni