Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Missir starf af ástæðum sem hann sjálfur á sök á. Ákvörðun staðfest.
Nr. 6 - 2004
Úrskurður
Hinn 6. febrúar 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 6/2004.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 á höfuðborgarsvæðinu samþykkti á fundi sínum þann 22. desember 2003 umsókn Y, um atvinnuleysisbætur frá 13. október 2003. Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 24. október 2003 um starfslok hans hjá F var réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, sem kveður á um það að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna, skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga.
2.
Y kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 15. janúar 2004. Í bréfinu segist hann kæra úrskurðinn á grundvelli þess að hann hafi sagt upp störfum af gildum ástæðum. Hann vilji ekki fara út í ástæðuna í smáatriðum, en ekki sé um það deilt að ástæða uppsagnar hans sé málefnalegur ágreiningur við æðsta yfirmann hans. Enda hafi það komið skýrt fram í vitna viðurvist að honum hafi að lokum verið gerðir tveir kostir; að segja upp störfum og njóta að launum þriggja mánaða óunnins uppsagnarfrests eða vera rekinn ella.
3.
Í málinu liggur fyrir vinnuveitandavottorð dags. 24. október frá F, þar sem fram kemur að Y hafi starfað hjá stofnuninni tímabilið 1. október 2002 til 31.október 2003 er hann sagði sjálfur upp störfum. Haft var samband við yfirmann hjá F og þar var staðfest að um ágreining milli Y og yfirmanns hans hafi verið að ræða. Samkvæmt yfirmanninum var um samstarfsörðuleika að ræða, bæði við yfirmenn og samstarfsfólk. Y hafði haft sínar skoðanir á því hvernig framkvæma skyldi hlutina, og var ekki hnikað með það. Um sveigjanlegan vinnu tíma er að ræða, en ætlast er til að starfsfólk sé mætt kl. 9:00 á morgnana þar sem um afgreiðslustofnun er að ræða. Y mætti hins vegar seinna, og jafnvel eftir kl. 10:00 á morgnana. Hann fékk áminningarbréf og bætti þá mætingarnar. Eftir stóð að samstarfsörðugleikar voru það miklir að annað starfsfólk var farið að hóta því að segja upp ef hann hætti ekki. Í kjölfarið var honum gefinn kostur á að segja upp eða vera sagt upp ella.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna. Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglugerð nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta en þar segir: Ef umsækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, séu starfslok tilkomin vegna einhverra eftirtalinna atvika:
a. Maki umsækjanda hafi farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. Uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar.
Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.
Samkvæmt 18. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 á umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem á kröfu um laun í uppsagnarfresti á hendur vinnuveitanda sem ekki hefur verið úrskurðaður gjaldþrota ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en uppsagnarfrestur er liðinn.
2.
Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast ástæður þær sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997. Ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað flokkast ekki sem gildar ástæður í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997. Kærandi segist hafa orðið að velja á milli þess að hætta sjálfur og fá laun í þriggja mánaða óunnum uppsagnarfresti eða verða rekinn ella. Samkvæmt kjarasamningum eiga launamenn almennt rétt á launum í uppsagnarfresti og skiptir þá ekki máli hvort launamaðurinn segir sjálfur upp eða að honum sé sagt upp. Ef launamaður segir sjálfur upp frekar en að vera sagt upp getur það þó haft áhrif til hins betra á seinni tíma umsóknir hans og að sögn yfirmanns hans var hann því hvattur til að segja sjálfur upp. Samkvæmt samtali við yfirmann kæranda virðist ekki leika vafi á að kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum er hann sjálfur átti sök á. Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 á höfuðborgarsvæðinu um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 staðfest.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgrsvæðið frá 22. desember 2003 um niðurfellingu bótaréttar Y í 40 bótadaga skv. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysisbætur, er staðfest.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka