Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Segir upp vaktavinnustarfi að loknu fæðingarorlofi vegna skorts á barnagæslu utan dagvinnutíma. Ákvörðun um niðurfellingu bóta felld úr gildi.
Nr. 8 - 2004
Úrskurður
Hinn 6. febrúar 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 8/2004.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta á Norðurlandi eystra samþykkti á fundi sínum þann 6. janúar 2004 umsókn X, um atvinnuleysisbætur frá 19. desember 2003. Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 19. desember 2003 og framlagðra skýringabréfa um starfslok hennar hjá L ehf. hennar var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, sem kveður á um það að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna, skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga.
2.
X kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dagsettu í janúar 2004. Í bréfi sínu segist hún hafa verið í fæðingarorlofi. Hún hafi áður unnið vaktavinnu og verið sagt að er hún kæmi aftur til starfa að því loknu í janúar 2004 þyrfti hún ekki að vinna vaktavinnu og þyrfti ekki að vinna um helgar, heldur gæti hún fengið fasta vinnu á virkum dögum er hæfði hennar aðstæðum. Um miðjan desember hafi hún hins vegar fengið bréf þar sem henni var tjáð að hún gæti annað hvort fengið fyrri vaktavinnuna sína aftur er hún kæmi til starfa eða hætt störfum. Um hafi verið að ræða tólf tíma vaktir, bæði á kvöldin og um helgar, og það gæti hún ekki boðið syni sínum. Í bréfi X til svæðisvinnumiðlunar dags. 15. des. 2003 kemur fram að hún hafi ekki barnagæslu fyrir son sinn utan venjulegs dagvinnutíma. Hún sé að leita sér að vinnu frá kl. 8 til kl. 17. Eins og er hafi hún gæslu frá kl. 8 til 12 en sé að leita að gæslu frá kl. 12 til 17.
3.
Í bréfi yfirmanns X hjá L ehf. dagsettu í desember 2003 kemur fram að vaktir séu fljótandi og á virkum dögum yfir veturinn eru vaktir til skiptis frá kl. 8 til 15 og frá kl. 15 til 21:30. Einnig er unnið aðra hvora helgi frá kl. 10 til 22. Það sé ekki framkvæmanlegt að bjóða henni fastan vinnutíma á hverjum degi, því þá þyrftu aðrir starfsmenn vinnustaðarins einnig að eiga kost á slíkum vinnutíma og því miður myndi það ekki ganga upp. Það væri í rauninni ekkert í boði fyrir hana nema að ganga inn í það vaktafyrirkomulag L ehf. En aðstæðna hennar vegna hafi hún ekki getað þegið þessa vinnu, fjarvera frá svo ungu barni hefði verið allt of mikil utan þess að hún hefði ekki getað fengið barnagæslu miðað við þessar vaktir.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna. Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglugerð nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta en þar segir: Ef umsækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, séu starfslok tilkomin vegna einhverra eftirtalinna atvika:
a. Maki umsækjanda hafi farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. Uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar.
Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.
2.
Þær ástæður sem taldar eru upp í 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997, um greiðslu atvinnuleysisbóta, er ekki tæmandi taldar. Ekki verður talið að skortur á dagheimilisplássi á venjulegum dagvinnutíma, þ.e. frá kl. 08:00 til 17:00 eða 09:00 til 18:00, geti verið gild ástæða í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnutími kæranda átti hins vegar að miklu leyti að vera utan venjulegs dagvinnutíma, bæði á kvöldin og 12 tíma vaktir aðra hvora helgi. Kærandi er nýkomin úr fæðingarorlofi og hefur ekki barnagæslu á þeim tíma og var því nauðugur einn kostur að hafna vinnunni. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta ber að taka tillit til þessara aðstæðna kæranda.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Norðurland eystra um 40 daga niðurfellingu bótaréttar X með vísan til 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar úr gildi.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta á Norðurlandi eystra frá 6. janúar 2004 um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga skv. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysisbætur, er felld úr gildi.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka