Ótímabundin niðurfelling bótaréttar með fyrirvara um sex vikna samfellda vinnu eftir missi bótaréttar. Sagt upp starfi, hafði áður fengið niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga. Ítrekun. Ákvörðun felld úr gildi.
Nr. 9 - 2004
Úrskurður
Hinn 6. febrúar 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 9/2004.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 26. janúar að synja umsókn X, um atvinnuleysisbætur. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, sem kveður á um það að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna, skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga. Missi hann aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju, nem hann sanni að hann hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli þess að þann 27. ágúst 2003 hafi hún verið láta sæta missi bótaréttar í 40 bótadaga vegna starfsloka hennar hjá A ehf. með vísan til þess að hún hafi sagt upp starfi sínu án gildra ástæðna. Á fundi úthlutunarnefndar nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið þann 26. janúar 2004 var ákveðið að synja X um atvinnuleysisbætur vegna starfsloka hennar hjá B í desember sama ár, en í atvinnuveitandavottorði dags. 23. janúar 2004 segir að hún hafi starfað hjá B tímabilið 9.-15. desember 2003 við umönnun aldraðra og ástæður starfsloka eru sagðar að henni hafi verið sagt upp.
2.
X kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags 30. janúar 2004. Í bréfinu segist hún hafa verið ráðin til reynslu í fimm daga. Í ákvörðun úthlutunarnefndar segir að hún hafi sagt starfsmanni vinnumiðlunar að henni hafi verið sagt upp vegna mætinga. Það sé ekki rétt. Hún hafi reyndar nefnt að hún hafi hún sofið yfir sig einu sinni, og reyndar verið með hita í það skiptið. Að sögn X hafi hjúkrunarfræðingur hjá B fyllt út vottorð vinnuveitanda og sagt að aðeins hafi verið um tímabundna ráðningu að ræða. Hún hafi verið mjög áhugasöm og mætt en verið ráðin tímabundið. Hún vill taka fram að síðast þegar hún fór á 40 daga bið hafi hún hætt vegna mikils álags og flutninga, en þá hafi hún ekki kært ákvörðunina.
3.
Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitendavottorð dags. 23. janúar 2004 þar sem segir að X hafi starfað á hjúkrunarheimilinu í fimm daga og þá hafi henni verið sagt upp störfum. Haft var samband við deildarstjóra þar sem X vann sem staðfesti að X hefði upphaflega verið ráðin til reynslu, en fljótlega hafi komið í ljós að hún réði ekki við vinnuna. Um var að ræða erfiða ummönnun aldraðra einstaklinga sem á ekki við alla. X virtist ekki geta valdið starfinu og féll þar að auki ekki inn í starfsmannahópinn sem fyrir var. Því var henni sagt upp að loknum reynslutíma. Að mati deildarstjóra var ekki um neina sök að ræða hjá X, hún réði einfaldlega ekki við starfið.
Niðurstaða
1.
Réttur til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 er hvort tveggja háður því að bótaþegi sé atvinnulaus og í atvinnuleit en í síðara skilyrðinu felst að hann geti tekið tilboði um vinnu fyrirvaralaust þegar hún býðst, sbr. 6. tölul. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit bótaþega kemur einnig fram í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir orðrétt: Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
a. Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.
b. Að vera fullfær til vinnu.
c. Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.
Í 4. tölulið 5. gr. laganna segir, sbr. 1. mgr. að [...] einstaklingar eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum sem hafa sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju, nema hann sanni að hann hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn.
2.
Fyrir liggur í máli þessu að kærandi missti rétt til bóta í 40 bótadaga skv. ákvörðun úthlutunarnefndar í ágúst 2003 vegna starfsloka án gildra ástæðna. Úthlutunarnefnd ákvað að kærandi skyldi aftur sæta bótamissi er honum var sagt upp störfum eftir fimm daga starf á hjúkrunarheimilinu B í desember sama ár, og þar sem um ítrekun var að ræða var um ótímabundinn missi atvinnuleysisbóta skv. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að ræða. Að sögn yfirmanns kæranda var hann ráðinn til reynslu í nokkra daga. Fljótt hafi komið í ljós að hann réð ekki við starfið, en um erfiða umönnun aldraða var að ræða. Ekki var um neina sök að ræða af hálfu kæranda. Að teknu tilliti til ofangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar að fella beri ákvörðun úthlutunarnefndar um synjun umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur með vísan til 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysisbætur úr gildi.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 26. janúar 2004 um synjun á umsókn X um atvinnuleysisbætur með vísan til 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysisbætur, er felld úr gildi.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka