Niðurfelling bóta í 40 bótadaga. Segir upp starfi vegna vangoldinna launa. Fellt úr gildi.
Nr. 14 - 2004
Úrskurður
Hinn 26. mars 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr.14/2004.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 á höfuðborgarsvæðinu samþykkti á fundi sínum þann 26. janúar 2004 umsókn Y, um atvinnuleysisbætur frá 6. janúar 2004. Með vísan til upplýsinga um starfslok hans hjá M ehf. sem gerir út skipið E sem Y var lögskráður á, var réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, sem kveður á um það að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna, skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga.
2.
Y kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 4. febrúar 2004. Í bréfinu segir hann að ástæða þess að hann sagði upp störfum á E væri sú að hann átti inni laun sem hann var búinn að eltast við að fá greidd í tvo mánuði. Útgerðarmaðurinn sagði mannskapnum upp á milli jóla og nýjárs vegna rekstrarerfiðleika hjá útgerðinni, en bað þá að koma aftur með þeim orðum að hann myndi gera upp við áhöfnina. Ekkert hafi þó gerst. Samkvæmt Y er þetta gild ástæða fyrir uppsögn hans á E. Samkvæmt upplýsingum frá Y hóf hann störf á skipinu 4. nóvember 2003 við undirbúning veiðanna og var lögskráður á skipið tímabilið 28. nóvember til 23. desember sama ár.
3.
Ekki liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá M ehf. í málinu. Aftur á móti liggur fyrir vottorð um lögskráningu Y á sjó. Þar kemur fram að Y var lögskráður á E í alls 25 daga eða tímabilið 28. nóvember 2003 til 22. desember 2003. Haft var samband við útgerðarmann E og sagði hann að Y hafi fengið öll sín laun uppgerð. Að auki hafi hann verið ráðinn aftur á skipið og átti að mæta þann 24. janúar s.l. en lét hvorki sjá sig né heyra frá sér. Hann hafi skuldað útgerðarfyrirtækinu fjármuni og hefur að fullu verið gert upp við hann. Útgerðarmaðurinn lofaði að senda kvittanir fyrir fullnaðaruppgjöri við Y. Ófullkomin reikningsyfirlit hafa borist. Samkvæmt yfirlitunum hefur útgerðarfélagið M, sem gerir E út, greitt kr. 30.000 inn á bankareikning á vegum Y. Í bréfi sínu, mótt. 27. febrúar s.l. lofaði útgerðarmaðurinn að senda undirgögnin síðar, en þau hafa ekki borist nú mánuði síðar og ekki hefur verið hægt að ná í hann í síma. Samkvæmt samtali við Y hefur hann fengið alls kr. 38.000 kr. greidda í peningum og á útistandandi um kr. 140.000 hjá fyrirtækinu sem hann hefur ekki fengið greiddar þrátt fyrir eftirgangsmuni. Samkvæmt útskrift frá ríkisskattstjóra eru ekki skráðar neinar launagreiðslur til Y frá fyrirtækinu á því tímabili sem um ræðir. Samkvæmt yfirlitinu var hann síðast á launaskrá á árinu 2003 hjá fyrirtækinu Þ ehf. í septembermánuði það ár. Haft var samband við Sjómannafélag Reykjavíkur símleiðis. Starfsmaður skrifstofunnar staðfesti að fleiri sjómenn á E hafi leitað til félagsins vegna vangoldinna launa, og að hann vissi um að a.m.k. 4-5 skipsmenn hefðu gengið út vegna þessa, þar á meðal skipstjórinn. Samkvæmt upplýsingum frá föður Y gekk öll áhöfnin út af þessum sökum.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna. Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglugerð nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta en þar segir: Ef umsækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, séu starfslok tilkomin vegna einhverra eftirtalinna atvika:
a. Maki umsækjanda hafi farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. Uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar.
Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.
2.
Kærandi sagði upp vegna þess að hann taldi að ekki hefði verið gert upp við sig launalega og að hann hafi þurft að eltast við launin sín í tvo mánuði. Kærandi var lögskráður á E í alls 25 daga eða tímabilið 28. nóvember 2003 til 22. desember 2003. Hann sótti um atvinnuleysisbætur þann 6. janúar 2004. Ekki er umdeilt að hann vann hjá fyrirtækinu M ehf. sem gerir út skipið E í nóvember og desember 2003. Samkvæmt útskrift ríkisskattstjóra dags. 24. febrúar 2004 eru engar launagreiðslur skráðar frá fyrirtækinu á nafn kæranda vegna tímabilsins sem hann vann á E. Samkvæmt upplýsingum frá Sjómannafélagi Reykjavíkur, sem reyndi að aðstoða áhafnarmeðlimi E er þeir leituðu til félagsins vegna vangoldinna launa gengu a.m.k. 4-5 meðlimir frá borði vegna þessa. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast ástæður þær sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum því gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997. Vangoldin laun geta talist ígildi uppsagnar. Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 á höfuðborgarsvæðinu um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 felld úr gildi.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 12. janúar 2004 um niðurfellingu bótaréttar Y í 40 bótadaga skv. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysisbætur, er felld úr gildi.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka