Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Segir upp vinnu vegna ágreinings við yfirmann. Staðfest
Nr. 21 - 2004
Úrskurður
Hinn 26. mars 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 21/2004.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum þann 2. mars 2004 umsókn X frá 19. febrúar 2004. Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 16. febrúar 2004 um starfslok hennar hjá B ehf. var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, sem kveður á um það að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna, skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga.
2.
X kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 12. mars 2004. Í bréfinu segist hún hafa hætt í vinnu vegna þess að það hafi verið mikil ósætti. Einn af starfsmönnunum hafi hringt í sig eitt kvöldið og beðið sig um að koma á bensínstöðina í M til að fá frítt bensín. Það eina sem hún þurfti að gera væri að setja kortið sitt inn og stimpla kr. 1.000 og byrja að dæla á bílinn sinn. Hún hafi gert það og fyllt bílinn af bensíni. Strákurinn hafi beðið hana að flýta sér og láta sig fá dæluna svo hann gæti fyllt á tank sem hann var með. Strákurinn hafi sagst ætla að borga sér ef bensínstöðin myndi rukka hana, sem þeir og gerðu. Reikningurinn hljóðaði upp á kr. 35.000. Þessi upphæð hafi síðan verið dregin af kortinu hennar og væri hún ekki enn búin að fá þetta greitt til baka. Þetta hafi gerst í ágúst 2003 og hafi hún síðan reynt að fá þetta greitt en án árangurs.
3.
Í málinu liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá B dags. 22. febrúar 2004 þar sem segir að X hafi starfað hjá fyrir tækinu tímabilið 24. apríl 2003 til 16. febrúar 2004. Ástæða starfsloka eru sögð að hún hafi sjálf sagt upp störfum. Í bréfi X dags. 23. febrúar 2004 segist hún hafa sagt upp vegna þess hve stjórinn væri leiðinlegur. Hún hafi viljað tala við þennan samstarfsmann, sem sé fóstursonur eigandans, en eigandinn hafi ekki leyft það svo hún sagði upp. Haft var samband við eiganda fyrirtækisins og sagði hann að þetta mál kæmi B ekkert við og væri ekki á þess vegum.. Einnig var haft samband við X og spurt nánar út í málsatvik. Hún segist hafa farið til lögreglu en þeir hafi sagt að þar sem hún hafi lánað kortið sitt gætu þeir ekkert gert. Sömu svör hefði hún fengið hjá VR. Hún viðurkenndi að mál þetta kæmi í raun ekki B við, hún hefði lánað peninga fyrir bensíni og búist við að fá þá greidda. Þegar það hafi ekki gengið hafi hún orðið reið út í eigandann og gengið út. Aðspurð sagðist X ekki telja að henni hefði verið sagt upp störfum hefði hún ekki gengið út sjálf.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna. Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglugerð nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta en þar segir: Ef umsækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, séu starfslok tilkomin vegna einhverra eftirtalinna atvika:
a. Maki umsækjanda hafi farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. Uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar.
Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.
2.
Ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað flokkast almennt ekki sem gildar ástæður í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997 samkvæmt framangreindum reglum. Kærandi virðist hafa lánað félögum sínum peninga fyrir bensíni og taldi að hún fengið þá greidda daginn eftir. Þetta skeði í ágúst 2003. Í febrúar 2004 þegar ekkert hafi gengið að fá endurgreiðslu á láninu og atvinnurekandinn sem er tengdur öðrum félaganum neitaði að skipta sér að málinu, þá varð kærandi mjög ósáttur við hann og sagði fyrirvaralaust upp starfi. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast ástæður þær sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997. Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 á höfuðborgarsvæðinu um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 staðfest.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 á höfuðborgarsvæðinu frá 2. mars 2004 um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga skv. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysisbætur, er staðfest.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka