Bótaréttur einstaklings sem er sjálfstætt starfandi hluta ársins. Fellt úr gildi.
Nr. 10 - 2004
Úrskurður
Hinn 6. febrúar 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 10/2004.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Norðurland vestra ákvað á fundi sínum þann 25. nóvember 2002 að synja umsókn Y 1. nóvember 2002. Í bréfi úthlutunarnefndar til Y dags. 26. nóvember s.l. svo og rökstuðningi nefndarinnar dags. 9. desember 2002 er sagt að ákvörðun nefndarinnar sé byggð á 6. og 7. gr. reglugerðar nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga þar sem segir að einstaklingar með opið virðisaukaskattnúmer eigi ekki samtímis rétt á atvinnuleysisbótum.
Y kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi, dags. 20. desember 2002 og gerði kröfu um að úrskurður nefndarinnar verði felldur úr gildi, honum verði greiddar atvinnuleysisbætur frá 1. nóvember 2002. Y sagði í bréfi sínu að úrskurður úthlutunarnefndar fæli í sér brot á 2. gr., 6. tölul 5. gr. og 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, 75. og 76. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, 7, 10., 11., 12., 13., 20. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk 10.gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 13/1997. Y sagist hafa verið launamaður, hann hafi verið í tryggingagjaldskyldri vinnu og bótahlutafall hans sé 96%. Að auki hafi hann reiknað sér laun fyrir vinnu í eigin þágu á jörð sinni tímabilið apríl til september að upphæð kr. 100.000 á mánuði. Aðra mánuði sé hann tekjulaus. Áður hafi hann verið launamaður meðfram búrekstri sínum.
2.
Þann 29. janúar 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp úrskurð í máli Y, málsnúmer 1/2003, og staðfesti ákvörðun úthlutunarnefndar um synjun umsókn hans um atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að hann væri ekki atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar þar eð hann væri sjálfstætt starfandi einstaklingur með rekstur í gangi og teldist ekki uppfylla skilyrði laganna um stöðvun rekstrar. Að tilmælum umboðsmanns Alþingis tók úrskurðarnefndin tók málið fyrir að nýju þann 6. febrúar 2004 með tilliti til þess hvort hann gæti átt rétt á bótum á grundvelli 6. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem kveður á um að ef tekjur eða tekjuígildi þeirra sem stunda vinnu í eigin þágu samsvari ekki hámarksbótum atvinnuleysistrygginga þá megi greiða þeim mismun atvinnuleysisbóta og teknanna eða tekjuígildisins. Ákveðið var að gefa Y kost á að tjá sig nánar um málið áður en nefndin kvæði upp úrskurð sinn. Y hefur verið ritað bréf vegna þessa og ítrekað reynt að hafa samband við hann símleiðis. Þar sem ekkert svar hefur borist frá honum ákvað nefndin að taka málið fyrir og kveða upp úrskurð í máli hans.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
2.
Samkvæmt 6. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eiga þeir sem stunda vinnu í eigin þágu sem gefur þeim tekjur eða tekjuígildi er a.m.k. samsvarar hámarksbótum atvinnuleysistrygginga á hverjum tíma ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Samsvari tekjurnar eða tekjuígildið ekki hámarksbótum atvinnuleysistrygginga má greiða mismun atvinnuleysisbóta og teknanna eða tekjuígildisins. Ekki hefur verið talið að ákvæði 6. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi við um þá einstaklinga sem eru með sjálfstæðan rekstur.
Með hugtakinu tekjuígildi er átt við að hlutaðeigandi vinni sjálfur í eigin þágu án þess að reikna sér laun fyrir. Starf hans felist þannig ekki í veitingu eða sölu vöru eða þjónustu til þriðja aðila. Um þýðingu þessa ákvæðis er vísað til 4. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt og eignaskatt, en þar er kveðið á um að eignaauki sem stafar af aukavinnu sem maður leggur fram utan venjulegs vinnutíma við byggingu eigin húsnæðis, teljist ekki til skattskyldra tekna. Vinni maður hins vegar á venjulegum dagvinnutíma við byggingu eigin húsnæðis ber honum að reikna sér laun fyrir þá vinnu. Umrædd vinna er þó ekki skattskyld í venjulegum skilningi en honum ber að gera grein fyrir henni á svokallaðri húsbyggingaskýrslu á skattframtali. Vinni hann á dagvinnutíma að byggingu húsnæðis í eigin þágu ber honum einnig að gefa upplýsingar um þá vinnu hjá vinnumiðlun. Það er síðan úthlutunarnefndar að ákveða hvort beita skuli álkvæði 6. tölul. 5. gr. og þá að hve miklu leyti. Ef ljóst má vera að viðkomandi starfi fullan vinnudag við byggingu eigin íbúðarhúsnæðis getur úthlutunarnefnd einnig synjað honum um atvinnuleysisbætur með vísan til þess að hann sé í raun ekki í stakk búinn til að þiggja vinnu fyrir milligöngu vinnumiðlunar. Hann sé m.ö.o. ekki á vinnumarkaði. Ef tekjurnar eða tekjuígildið samsvarar ekki hámarksbótum atvinnuleysistrygginga má hins vegar greiða mismun atvinnuleysisbóta og teknanna eða tekjuígildisins.
3.
Í 6. gr. a laga nr. 12/1997 er kveðið á um þau tilvik er umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur misst starf sitt að hluta og starfshlutfall hans verður minna en bótaréttur hans. Greinin kveður á um að þá sé úthlutunarnefnd heimilt að ákvarða honum bætur sem nema mismun bótaréttar hans og þess starfshlutfalls sem hann gegnir. Ef samanlagðar tekjur af hlutastarfi og atvinnuleysisbótum reiknast hærri en fullar bætur samkvæmt bótarétti hans að viðbættu frítekjumarki, skal skerða atvinnuleysisbætur hans um það sem umfram er.
4.
Kærandi byggir kröfu sína á því að vinna hans sem launamaður veiti honum rétt til atvinnuleysisbóta. Hann hefur að eigin sögn samhliða launavinnu sinni og eftir að hann missti launavinnuna rekið sjálfstæða starfsemi á jörð sinni við skógrækt. Vegna þessarar starfsemi þarf hann að hafa virðisaukaskattnúmer. Af skóræktinni hefur hann tekjur og hann reiknar sér endurgjald vegna hennar í sex mánuði á ári, kr. 100.000 fyrir tímabilið apríl til september eða sex mánuði á ári. Aðra mánuði ársins reikni hann sér ekki endurgjald og hafi ekki tekjur af búrekstri sínum. Hann hefur ekki þegið laun frá öðrum atvinnurekanda frá 4. október 2002. Ljóst virðist vera að kærandi er atvinnulaus hluta ársins. Að mati úrskurðarnefndar á ákvæði 6. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, sem kveður á um bótarétt samfara vinnu í eigin þágu sem gefur tekjur eða tekjuígildi, ekki við um kæranda, sbr. það sem að framan er sagt um eðli slíkrar vinnu, en kærandi stendur sem fyrr segir að sjálfstæðum rekstri við hrossarækt og skógrækt. Nefndin telur hins vegar að ákvæði 6. gr. a laga nr. 12/1997 geti átt við um kæranda þar sem hann virðist hafa misst starf sitt að hluta 6 mánuði ársins og að öllu leyti hina mánuði ársins. Samkvæmt ofansögðu er það mat úrskurðarnefndarinnar að fella beri fyrri úrskurð úrskurðarnefndar um synjun á umsókn hans um atvinnuleysisbætur og er málinu vísað aftur til úthlutunarnefndar til útreiknings bótaréttar hans með tilliti til ákvæða 6. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.
Úrskurðarorð:
Úrskurður úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta frá 29. janúar 2003 um synjun á umsókn Y um atvinnuleysisbætur er felldur úr gildi og lagt fyrir úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta á Norðurlandi vestra að reikna út bótarétt hans með tilliti til 6. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka