Synjun á bótarétti sjálfstætt starfandi einstaklings fyrir tímabil sem tyggingagjald var ekki greitt.
Nr. 10 - 2003

Úrskurður

 

Hinn 29. janúar 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 10/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 1. október 2002 samþykkja umsókn A um atvinnuleysisbætur frá 27. ágúst 2002, þar sem A hafði þá gert upp skuld sína í tryggingagjaldi innan tímamarka er gilda fyrir ársmenn skv. 3. gr. reglugerðar nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga.  Á sama fundi ákvað úthlutunarnefndin að synja beiðni A um atvinnuleysisbætur allt frá  febrúar 2001 á grundvelli þess að þá hafi hann ekki uppfyllt skilyrði 3. gr. reglugerðarinnar þar sem skuld í tryggingagjaldi hafi ekki verið gerð upp fyrr en eftir þann tíma eða þann 30. nóvember 2001.

 

2.

 

A kærði ákvörðun út­hlutunar­nefndar til úr­skurð­ar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta með bréfi, dags. 30. desember 2002 og krefst þess að ákvörðun  úthlutunarnefndar um synjun um atvinnuleysisbætur frá febrúar 2001 verði felld úr gildi.  Hann segir í bréfi sínu hafa lagt inn umsókn um atvinnuleysisbætur í febrúar 2001 en tekur þó fram að  einhver gögn kunni að hafa vantað með umsókninni.  Árið 2000 hafi verið áætlun í gangi vegna tryggingagjalda fyrir árið 2000 þar til álagning kom í stað áætlunar í október 2000.  Greiðsluskylda hafi því ekki verið fyrr en í apríl 2001.  Þar fyrir utan hafi verið gerð þau mistök af hálfu Tollstjóraembættisins að við útborgun vaxtabóta árið 2000 hafi ekki verið farið eftir greiðsluröð vangoldinna gjalda við skuldajöfnuð sem kveðið er á um í reglugerð.  Samkvæmt reglugerðinni komi tryggingagjald í 5. sæti, en vaxtabæturnar hafi farið í skuld á bifreiðagjöldum sem séu í 10. sæti og til Íbúðarlánasjóðs sem sé í 14. sæti.  Þannig hafi ekkert af vaxtabótunum sem námu samtals kr. 87.226 farið upp í greiðslu tryggingagjalds.  Að auki mótmælir A túlkun úthlutunarnefndar á ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um að miða skuli við skil á tryggingagjaldi síðustu 12 mánuðina til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga.  Úthlutunarnefndin túlki ákvæðið svo að miða skuli við greitt tryggingagjald en samkvæmt skoðun A séu engin rök sem styðja þá túlkun.

 

 

Niður­staða

 

1.

 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna eiga þeir rétt til bóta sem hafa á síðustu tólf mánuðum unnið í samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingasjaldskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða.  Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði.

 

Sam­kvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar er fé­lags­mála­ráð­herra veitt heimild til að setja nánari reglur um hvaða skil­yrðum sjálf­s­tætt starf­andi einstaklingar skulu full­nægja til þess að njóta bóta úr sjóðnum.

Í 1 tölul. 2. gr. reglu­gerðar nr. 740/1997 um bóta­rétt sjálf­s­tætt starf­andi einstaklinga úr At­vinnu­leysis­trygginga­sjóði segir orðrétt:

Hafi sjálfstætt starfandi einstaklingur greitt tryggingagjald mánaðarlega af reiknuðu endurgjaldi miðað við fullt starf, sbr. 4. gr. vegna síðustu 12 mánaða fyrir skráningu hjá svæðisvinnumiðlun, á hann rétt á hámarksbótum, sbr. 7. gr. laga um atvinuleysistryggingar, en hlutfallslega ella miðað við fjölda mánaða sem tryggingagjaldi var skilað.  Hafi umsækjandi dregið greiðslu tryggingagjalds lengur en þrjá mánuði fellur bótaréttur niður vegna viðkomandi tímabils.

3. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um svokallaða ársmenn.  Ákvæðið hljóðar svo: 

Hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur fengið samþykki ríkisskattstjóra fyrir því að greiða tryggingagjald vegna reiknaðs endurgjalds einu sinni á ári (ársmaður), skal hann hafa gert upp skuld sína í tryggingagjaldi vegna síðastliðinna 12 mánaða áður en umsókn hans um atvinnuleysisbætur er afgreidd hjá úthlutunarnefnd.

 

2.

 

Fyrir liggur að kærandi hafi fengið samþykki skattyfirvalda fyrir því að greiða tryggingagjald vegna reiknaðs endurgjalds einu sinni á ári.  Hann taldist því vera ársmaður samkvæmt reglugerðinni og fellur því undir ákvæði 3. gr. reglugerðarinnar um skil á tryggingagjaldi.  Ekkert liggur fyrir um að kærandi hafi lagt inn umsókn um atvinnuleysisbætur í febrúar 2001. Hins vegar liggur fyrir að kærandi skuldaði á þessum tíma tryggingagjald sem hann hafi fyrst greitt þann 30. nóvember 2001.  Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar átti hann því ekki bótarétt á þessum tíma og hefði ekki átt þótt hann hefði lagt inn umsókn þar að lútandi.  Samkvæmt upplýsingum Tollstjórans í Reykjavík var álagning á tryggingagjaldi vegna kæranda ekki til staðar fyrr en þann 1. nóvember 2000 og var því ekki hægt að skuldajafna því við vaxtabætur  þær sem kærandi tilgreinir sem koma áttu til útborgunar árið 2000.  Kæranda mátti því vera ljóst í febrúar 2001 að tryggingagjald að reiknuðu endurgjaldi hans var í vanskilum og að vaxtabæturnar hafi farið upp í greiðslu annarra opinberra gjalda.  Ekki er hægt að fallast á þá túlkun kæranda að orðalag 4. tölul. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að miða skuli við skil á tryggingagjaldi síðustu tólf mánuði sé óháð því að gjaldið hafi verið greitt.    Ber af þeim sökum að staðfesta úrskurð úthlutunarnefndar um að kærandi hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum frá febrúar 2001.

 

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 1. október 2002 um samþykki á umsókn A um atvinnuleysisbætur frá 27. ágúst 2002 er staðfest.  Jafnfram er synjun úthlutunarnefndar um greiðslu atvinnuleysisbóta til A allt aftur til febrúar 2001 staðfest.            

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Frið­jón Guðröðarson

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                            Benedikt Davíðs­son

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni