Bótaréttur sjálfstætt starfandi einstaklings með rekstur í gangi felldur niður. Endurgreiðsla ofgreiddra bóta ákveðin. Staðfest.
Nr. 15 - 2004
Úrskurður
Hinn 27. febrúar 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 15/2004.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd Tryggingasjóðs ákvað á fundi sínum þann 15. desember 2003 að Y bæri að endurgreiða Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga fjárhæð sem næmi einföldum ofgreiddum atvinnuleysisbótum eða kr. 89.775, með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 46/1997 um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga. Að auki var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður með vísan til 11. og 12. gr. reglugerðar nr. 317/2003 um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga sem kveður á um að skilyrði bótaréttar sé að rekstur hafi verið stöðvaður.
2.
Ákvörðun úthlutunarnefndar í máli Y var kærð til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dagsettu 2. febrúar 2004. Í bréfinu er óskað eftir endurskoðun á ákvörðun úthlutunarnefndarinnar í ljósi þess að afkoma Y sé afspyrnuléleg. Vísað er til afrits af ársreikningi hans árið 2003, þar sem fram kemur að tekjur hans hafi verið kr. 1.198.626 á árinu. Þetta samsvari 6 vikna vinnu á árinu miðað við útseldan dagvinnu/eftirvinnutaxta vörubifreiðastjóra. Í bréfinu segir að Y hafi gengið um atvinnulaus í 46 vikur eða bróðurpart ársins. Þegar menn séu svona afskiptir með verkefni reyni þeir auðvitað að grípa það litla sem gefst, og eins og umræddar atvinnuleysisbætur beri með sér séu þær heldur ekki upp á marga fiska. Ljóst sé að Y hafi ekki alveg farið að reglum varðandi atvinnuleysisbætur, en ennfremur sé augljóst að atvinnutekjur upp á eina milljón króna séu ekki til að lifa af þó öllum öðrum kostnaði sé haldið í frekasta lágmarki.
3.
Fram kemur í málinu að úthlutunarnefnd Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga ákvað á fundi sínum þann 23. september 2003 að fella niður bótarétt Y í 40 bótadaga þar sem hann hafði hafnað atvinnutilboði frá S. Y kærði ákvörðun þessa til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta sem vísaði málinu aftur til úthlutunarnefndarinnar þar sem ekki væri séð að Y uppfyllti skilyrði laga nr. 46/1997 og reglugerðar nr. 317/2003 til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum, þar sem hann hafði ekki stöðvað rekstur eins og áskilið væri í 11. og 12. gr. rgl. 317/2003. Vísað var til útskriftar frá ríkisskattstjóra og þess að hann hefði ekki tilkynnt sig af launagreiðandaskrá eins og 11. gr. reglugerðarinnar kveður á um.
Niðurstaða
1.
Lög um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997 byggja á þeirri forsendu sbr. 4. gr. laganna að þeir einir eigi rétt á atvinnuleysisbótum sem eru án atvinnu enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
Í 19. gr. laganna segir að sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta. Einnig segir að fyrsta brot varði missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot varði missi bóta í 1-2 ár.
Í 3. mgr. 19. gr. laganna segir orðrétt: Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.
Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 317/2003 um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga er skilyrði bóta úr sjóðnum að sjóðfélagi hafi stöðvað rekstur. Orðrétt er greinin svohljóðandi: Sjóðfélagi telst hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðandaskrár ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Þegar meta skal hvort starfsemi hafi verið stöðvuð skal líta til hreyfinga í virðisaukaskattskrá ríkisskattstjóra. Heimilt er að taka tillit til hreyfinga í virðisaukaskattskrá vegna eignasölu, enda hafi sjóðfélagi lagt fram yfirlýsingu þess efnis að hann hyggist hætta rekstri.
Enn fremur telst sjóðfélagi hafa stöðvað rekstur hafi hann lagt inn skráningarnúmer sitt varanlega eða sýnt fram á að atvinnutæki hafi verið seld eða afskráð, reksturinn framseldur öðrum eða hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta.
12. grein reglugerðarinnar er svohljóðandi: Sjóðfélagi skal láta fylgja umsókn sinnu um greiðslur úr Tryggingasjóðnum staðfestingu um að hann hafi stöðvað rekstur skv. 11. gr. Staðfestingin skal fela í sér:
a) yfirlýsingu hlutaðeigandi um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður þess, og
b) afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður eða vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hafi verið afskráð.
2.
Í gögnum málsins liggur fyrir útskrift frá ríkisskattstjóra þar sem kemur fram að kærandi hefur rekið einstaklingsfyrirtæki til vörubílaaksturs frá 15. september 1987. Þar kemur einnig fram að hann reiknar sér reglulega endurgjald fyrir vinnu sína. Kærandi sækir um fullar bætur og fullt starf. Bótahlutfall kæranda reiknast 42%. Kærandi hefur ekki farið að skilyrðum 11. og 12. gr. rgl. 317/2003 varðandi stöðvun rekstrar. Fram kemur að hann hafði tekjur sem hann gaf ekki upp hjá vinnumiðlun samtímis því að hann þáði atvinnuleysisbætur. Með tilliti til þessa er það niðurstaða úrskurðarnefndar að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga um að kæranda beri að endurgreiða einfaldar ofgreiddar bætur að fjárhæð kr. 89.775, jafnframt því sem réttur hans til atvinnuleysisbóta er felldur niður með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 46/1997 um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga og 11. og 12. gr. reglugerðar nr. 317/2003 um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga frá 15. desember 2003 um að Y beri að endurgreiða Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga einfaldar ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 89.775 með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 46/1997, auk þess sem réttur hans til atvinnuleysisbóta er felldur niður með vísan til 4. gr. sömu laga svo og 11. og 12. gr. rgl. nr. 317/2003, er staðfest.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
Formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka