Bótaréttur sjálfstætt starfandi einstaklings ákveðinn 60%. Fær heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald en viðmiðunarreglur kveða á um. Staðfest.
Nr. 16 - 2004

Úrskurður

 

Hinn 27. febrúar 2004 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 16/2004.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga ákvað á fundi sínum þann 14. janúar 2004 að bótaréttur Y væri 60%.  Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli  5. gr. reglugerðar nr. 317/2003 um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, þar sem kveðið er á um að  sjóðfélagi, sem greiðir mánaðarlega stargreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein, teljist vera í hlutastarfi.

 

2.

Y kærði ákvörðun út­hlutunar­nefndar til úr­skurð­ar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta með bréfi, dags. 30. janúar 2004.  Í bréfi sínu segist hann vera sjálfstætt starfandi bílstjóri og hafa rekið eigin vörubíl.  Hann hafi verið starfandi í 100% starfi, en rauntekjur hans séu lágar.  Auk þess greiði hann kostnað af bíl sínum, hvort sem hann sé í notkun eða ekki.  Hann hafi greitt lækkandi tryggingagjald árið 2003, enda sé það í takt við minnkandi tekjumöguleika hans fyrir 100% vinnu.  Hann hafi enda lagt inn VSK númer sitt þegar ljóst var að tekjurnar dygðu ekki fyrir launum til hans og útgjöldum vegna bílsins.

 

Niður­staða

 

1.

Samkvæmt 4. laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997 eiga sjálfstætt starfandi sjóðfélagar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr sjóðnum samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Samkvæmt 5. tölul. 4. gr. laga nr. 46/1997  er skilyrði að þeir hafi á síðustu tólf mánuðum áður en þeir stöðvuðu rekstur eða urðu atvinnulausir staðið mánaðarlega í skilum með greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi í a.m.k. þrjá mánuði áður en rekstur stöðvaðist, en hlutfallslega lengur hafi tekjur af rekstri verið lægri en viðmiðun reiknaðs endurgjalds í hlutaðeigandi starfsgrein samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 317/2003 um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga telst sjóðfélagi sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein vera í fullu starfi.  Samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar telst sjóðfélagi sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaháðherra í viðkomandi starfsgrein vera í hlutastarfi.  Starfshlutfall hans ákvarðast af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sjóðfélaga og viðmiðunarfjárhæðar. 

 

2.

Samkvæmt auglýsingu fjármálaráðherra nr. 7/2003 um reiknað endurgjald fyrir tekjuárið 2003 fellur starfsemi kæranda undir flokk E(2),  þ.e. ýmis starfsemi einyrkja ófaglærðra og vélstjórnenda s.s. bifreiðastjóra. Reiknað endurgjald við starfsemi í flokki E(2) var á árinu 2003 kr. 175.000 á mánuði.  Kærandi starfaði sem vörubifreiðastjóri og telst því til flokks E-2 og bar samkvæmt því að reikna sér kr. 175.000 í reiknað endurgjald á mánuði og kr. 10.027,50 í tryggingagjald, sem er lögbundið 5,73% hlutfall af launum.   Kærandi fékk heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald og greiddi tryggingagjald og staðgreiðsluskatt af kr. 106.003 mánaðarlaunum allt árið 2003, þ.e. 6.074 á mánuði í tryggingagjald.  Samkvæmt útskrift frá skattstjóra er Kæarandi í skilum með tryggingagjald.  Hann reiknast samkvæmt því  í 60% starfshlutfall samkvæmt 5. gr. reglugerðar 317/2003.   Þrátt fyrir lægra reiknað endurgjald en viðmiðunarfjárhæðir fjármálaráðherra segja til um var kærandi í fullu starfi þennan tíma.   Samkvæmt upplýsingum skattstjóra hætti kærandi rekstri þann 31. desember 2003 og reiknar sér engin laun eftir það.

 

3.

. Viðmiðunartímabil bótaréttar er sem áður segir tólf mánuðir fyrir stöðvun rekstrar sbr. 5. tölul. 4. gr. laga nr. 46/1997 að teknu tilliti til 6. gr. laganna um geymdan bótarétt. Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar um 60% bótahlutfall kæranda með vísan í 5. tölul. 4. gr. laga nr. 46/1997 og  5. gr. rgl. 317/2003. 

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga frá 14. janúar 2004 um 60% bótarétt Y með vísan í 5. tölul. 4. gr. laga nr. 46/1997 og 5. gr. rgl. 317/2003, er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

formaður

 

Árni Benedikts­son                                            Benedikt Davíðs­son

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni