Bótagreiðslur stöðvaðar þar til nánari upplýsingar liggja fyrir um sjálfstæðan rekstur. Staðfest.
Nr. 22 - 2004

Úrskurður

 

Hinn 26. mars 2004 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 22/2004.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 6. janúar 2004  að stöðva bótagreiðslur til X.  Í ákvörðun nefndarinnar var vísað til upplýsinga í fjölmiðlun um starfsemi X á sviði sýningahalds og skemmtikvölda.  Í kjölfarið var henni sent bréf dags. 10. desember 2003 þar sem óskað var eftir að hún gæfi upp hjá vinnumiðlun allar vinnustundir við þessi verkefni, hvort sem þau hafi verið launuð eða ekki, og vísar í  6. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar. Í bréfi úthlutunarnefndar til X dags. 10. desember 2003 kemur fram að samkvæmt 6. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi þeir ekki rétt til atvinnuleysisbóta sem stunda vinnu í eigin þágu sem gefur þeim tekjur eða tekjuígildi sem samsvarar hámarksbótum á hverjum tíma.  Þannig verði að draga frá bótum tíma sem fer í alla vinnu, jafnvel þótt hún sé ólaunuð, og beri að tilkynna um slíka vinnu til Vinnumiðlunar við reglubundna stimplun.  Ef það sé ekki gert geti það valdið missi bótaréttar sbr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem X hafi ekki sinnt þessari beiðni og ekki skráð neinar vinnustundir hjá vinnumiðlun ákvað nefndin að stöðva bótagreiðslur uns nánari skýringar hafi borist.  Einnig ákvað nefndin að með vísan til breytinga félagsmálaráðherra á 2. gr. reglugerðar  um breytingu á 5. gr. reglugerðar nr. 316/2003 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði reiknist bótaréttur Kolbrúnar  42%  frá gildistöku reglugerðarinnar þann 16. desember 2003.  Í reglugerðinni var staðfest að við útreikning bótaréttar teljist sjálfstætt starfandi einstaklingur aðeins hafa verið í fullu starfi hafi hann greitt reiknað endurgjald í samræmi við viðmiðunarreglur fjármálaráðherra og að ákvörðun skattstjóra um að fallast á lægra endurgjald valdi því að áunninn bótaréttur skerðist hlutfallslega sem lækkuninni nemur.  Nefndin ákvað einnig að ekki yrði krafist endurgreiðslu á ofgreiddum bótum. 

 

 

 

2.

X kærði ákvörðun út­hlutunar­nefndar til úr­skurð­ar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta með bréfi, mótteknu þann 5. mars. 2004.  Í bréfi sínu segist hún kvarta yfir þeirri meðferð sem hún hefur fengið hjá úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta.  Henni hafi tvisvar verið vísað frá. Nógu erfitt sé að sækja um bætur vegna atvinnuleysis, hvað þá að fá þessa meðferð.  X segist í bréfi sínu ekki vera sjálfstætt starfandi einstaklingur.   Hún sé búin að vera atvinnulaus töluvert lengi samanber skrár  vinnumiðlunar hjá Hagvangi.  Hún fékk bætur eftir að hún skráði sig um miðjan nóvember 2003, en þó ekki síðustu fjórar vikur.  Þetta geti Félagsþjónustan í Reykjavík staðfest.  Hún geti ekki að því gert að einhver kalli sig athafnakonu sökum þess að hún hjálpi þeim sem minna mega sín, samanber söfnun fyrir barna- og unglingadeild fyrsta sunnudag í nóvember s.l. og 9. nóvember.  Ef hún geti hjálpað ungu fólki þá geri hún það en það þýði ekki að hún sé að vinna á launum fyrir ungt fólk eða aðra, þau eigi ekki peninga.  X ítrekar að hún sé atvinnulaus og hafi skráð sig samviskusamlega.  Einnig sé hún að fara á námskeið samanber stig nr. 2 hjá vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins.

 

3.

            Í gögnum málsins kemur fram að X var með skráða sjálfstæða starfsemi tímabilið 8. nóvember 1993 til 18. október 2002 er hún afskráði fyrirtæki sitt og afskráði sig af launagreiðendaskrá.  Samkvæmt upplýsingum úr fjölmiðlum virðist X starfa sem framkvæmdastjóri við skipulagningu tískusýninga og heldur að auki úti tveimur alþjóðlegum vefsíðum tengdum þeirri starfsemi.

 

 

 

Niður­staða

1.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Samkvæmt 6. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eiga þeir ekki rétt til atvinnuleysisbóta sem stunda vinnu í eigin þágu sem gefur þeim tekjur eða tekjuígildi er a.m.k. samsvara hámarksbótum atvinnuleysistrygginga á hverjum tíma.  Nú samsvara tekjurnar eða tekjuígildið ekki hámarksbótum atvinnuleysistrygginga og má þá greiða mismun atvinnuleysisbóta og teknanna eða tekjuígildisins.  Þannig  kemur fram í lögunun að draga verður  frá bótum allan vinnutíma , jafnvel þótt hún sé ólaunuð, og beri að tilkynna um slíka vinnu til vinnumiðlunar við reglubundna stimplun.  Ef það sé ekki gert geti það valdið missi bótaréttar sbr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

2.

 

Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna eiga þeir rétt til bóta sem hafa á síðustu tólf mánuðum unnið samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingasjaldskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða.  Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði.

Bæði þeir sem teljast sjálfstætt starfandi einstaklingar samkvæmt rgl. 316/2003 svo og einstaklingar sem vinna við eigin atvinnurekstur, hvort sem um er að ræða starf á vegum sameignarfélags, einkahlutafélags eða hlutafélags eða á vegum tengdra félaga (dótturfélaga, hlutdeildarfélaga) og hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar, skulu reikna sér endurgjald samkvæmt reglum fjármálaráðherra um reiknað endurgjald, nú reglur nr. 7/2003. 

            Samkvæmt 5. gr. reglugerðar um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 316/2003 telst sjálfstætt starfandi einstaklingur vera í fullu starfi ef hann greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfgrein.  Samkvæmt 6. gr. telst einstaklingur vera í hlutastarfi ef hann greiðir staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein.  Starfshlutfall hans ákvarðast af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sjóðfélaga og viðmiðunarfjárhæðar

Framkvæmdastjórn við sýningarhald fellur undir flokk C(4) samkvæmt viðmiðunarreglum fjármálaráðherra svo og þeir sem starfa við fjölmiðlun, listamenn, kennslustarfsemi, og námskeiðahald.   Reiknað endurgjald samkvæmt þessum flokki var mánaðarlega kr. 300.000 á árinu 2002 og kr. 200.000 á árinu 2001.  Fram kemur að X fékk heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald en samkvæmt viðmiðunarreglum á árunum 2001 og 2002.  Síðar virðist hún hafa fengið niðurfellingu hluta tryggingagjalds af heimiluðu reiknuðu endurgjaldi.  Samkvæmt útskrift frá Tollstjóraembættinu dags. 24. nóvember 2003 er kærandi í skilum með greiðslu þess tryggingagjalds sem ekki var fellt niður.  Samkvæmt útskrift á greiðslu tryggingagjalds reiknaði kærandi sér kr. 170.730 í mánaðarlaun 10 mánuði árinu 2002 og kr. 105.985 í endurgjald allt árið 2001.

 

3.

 

Í gögnum málsins liggja fyrir upplýsingar úr fjölmiðlum og heimasíðum um að kærandi hafi starfað sem framkvæmdastjóri tískusýninga og að hann haldi úti tveimur netsíðum í tengslum við þær.  Fram kemur að um stórar sýningar hafi verið að ræða og töluverða vinnu í kringum þær.  Síðasta sýning var í febrúar á þessu ári, áætlað er að um árvissan viðburð verði að ræða og fram kemur að þegar sé hafinn undirbúningur að næstu sýningu að ári.   Óskað hafið verið eftir því að kærandi gæfi upp hjá vinnumiðlun allar vinnustundir við þessi verkefni, hvort sem þau hafi verið launuð eða ekki, sbr. 6. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar. Í bréfi úthlutunarnefndar til X dags. 10. desember 2003 kemur fram að Þar sem X hafi ekki sinnt þessari beiðni og ekki skráð neinar vinnustundir hjá vinnumiðlun ákvað nefndin að stöðva bótagreiðslur uns nánari skýringar hafi borist.  Einnig ákvað nefndin að með vísan til 2. gr. reglugerðar um breytingu á 5. gr. reglugerðar nr. 316/2003 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði reiknist bótaréttur kæranda  42%  frá útgáfu reglugerðarinnar þann 16. desember 2003.  Í reglugerðinni var staðfest að við útreikning bótaréttar teljist sjálfstætt starfandi einstaklingur aðeins hafa verið í fullu starfi hafi hann greitt reiknað endurgjald í samræmi við viðmiðunarreglur fjármálaráðherra og að ákvörðun skattstjóra um að fallast á lægra endurgjald valdi því að áunninn bótaréttur skerðist hlutfallslega sem lækkuninni nemur. Kærandi fékk heimild skattstjóra til að reikna sér endurgjald og lækkar bótahlutfall hennar sem því nemur.  Nefndin ákvað einnig að ekki yrði krafist endurgreiðslu á ofgreiddum bótum.  Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri stöðvun bótagreiðslna til kæranda þar til hann  gefi upp hjá vinnumiðlun alla vinnu í eigin þágu sem gefur honum tekjur eða tekjuígildi samkvæmt ofansögðu með vísan í 6. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997.

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 6. janúar 2003 um stöðvun bótagreiðslna til X þar til umbeðin gögn um vinnustundir skv. 6. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar hafa borist er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Bentsdóttir

formaður

 

Árni Benedikts­son                                            Benedikt Davíðs­son

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni