Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á. Endurupptaka. Fyrri úrskurður staðfestur.
Nr. 24 - 2004
Úrskurður
Hinn 26. mars 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 24/2004.
Málsatvik og kæruefni
1.
Óskað er endurupptöku úrskurðarnefndar á máli Y nr. 6/2004 sem kveðinn var upp þann 6. febrúar s.l. Endurupptöku er óskað á grundvelli þess að Y hafi ekki verið gefinn kostur á að neyta andmælaréttar síns gegn ummælum fyrrum yfirmanns síns um ástæður starfsloka hans hjá A áður en úrskurðarnefnd úrskurðaði í máli hans. Á fundi úrskurðarnefndarinnar dags. 27. febrúar s.l. var ákveðið að taka málið upp að nýju m.t.t. bréf hans dags. 11. febrúar 2004, svo og tölvubréfs dags. 25. mars s.l.
2.
Málavextir eru þeir að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 á höfuðborgarsvæðinu samþykkti á fundi sínum þann 22. desember 2003 umsókn Y um atvinnuleysisbætur frá 13. október 2003. Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 24. október 2003 um starfslok hans hjá A var réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, sem kveður á um það að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna, skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga.
3.
Y kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 15. janúar 2004. Í bréfinu segist hann kæra úrskurðinn á grundvelli þess að hann hafi sagt upp störfum af gildum ástæðum. Hann vilji ekki fara út í ástæðuna í smáatriðum, en ekki sé um það deilt að ástæða uppsagnar hans sé málefnalegur ágreiningur við æðsta yfirmann hans. Enda hafi það komið skýrt fram í vitna viðurvist að honum hafi að lokum verið gerðir tveir kostir; að segja upp störfum og njóta að launum þriggja mánaða óunnins uppsagnarfrests eða vera rekinn ella.
4.
Í málinu lá fyrir vinnuveitandavottorð dags. 24. október frá A, þar sem fram kemur að Y hafi starfað hjá stofnuninni tímabilið 1. október 2002 til 31.október 2003 er hann sagði sjálfur upp störfum. Haft var samband við A og þar var staðfest að um ágreining milli Y og yfirmanns hans hafi verið að ræða. Samkvæmt yfirmanninum var um samstarfsörðuleika að ræða, bæði við yfirmenn og samstarfsfólk. Y hafi haft sínar skoðanir á því hvernig framkvæma skyldi hlutina, og var ekki hnikað með það. Um sveigjanlegan vinnu tíma er að ræða, en ætlast er til að starfsfólk sé mætt kl. 9:00 á morgnana þar sem um afgreiðslustofnun er að ræða. Y mætti hins vegar seinna, og jafnvel eftir kl. 10:00 á morgnana. Hann fékk áminningarbréf og bætti þá mætingarnar. Eftir stóð að samstarfsörðugleikar voru það miklir að annað starfsfólk var farið að hóta því að segja upp ef hann hætti ekki. Í kjölfarið var honum gefinn kostur á að segja upp eða vera sagt upp ella.
5.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta tók málið eins og áður segir fyrir á fundi sínum þann 6. febrúar 2004. Að mati nefndarinnar töldust ástæður þær sem kærandi gaf fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997. Vísað var til þess að ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað flokkist ekki sem gildar ástæður í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997 til að segja upp starfi sínu. Kærandi sagðist hafa orðið að velja á milli þess að hætta sjálfur og fá laun í þriggja mánaða óunnum uppsagnarfresti eða verða rekinn ella. Vísað var til þess í úrskurðinum að hvora leiðina sem kærandi hefði valið hefði hann átt rétt á lögboðnum uppsagnarfresti. Samkvæmt kjarasamningum ættu launamenn almennt rétt á launum í uppsagnarfresti og skipti þá ekki máli hvort launamaðurinn segði sjálfur upp eða að honum væri sagt upp. Ef launamaður kysi að segja upp sjálfur frekar en að vera sagt upp gæti það þó haft áhrif á atvinnuumsóknir hans seinna meir. Vísað var til þess að samkvæmt samtali við yfirmann kæranda hafi ekki virst vafi leika á því að kærandi hefði misst starf sitt af ástæðum er hann sjálfur átti sök á. Með vísan til framanritaðs staðfesti úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 á höfuðborgarsvæðinu um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.
6.
Y fór fram á endurupptöku máls síns hjá úrskurðarnefndinni með bréfi dags. 11. febrúar 2003. Í bréfi sínu segir hann að honum þyki afleitt að nefndin skuli ekki gæta meira jafnræðis á milli málsaðila og eiga samtal við sig og óska nánari skýringa áður en úrskurður er kveðinn upp, rétt eins og nefndin hafði samband við fyrrum yfirmann hans. Hann spyr hvort það sé hugsunin á bak við þessa 40 daga niðurfellingu bóta að sá sem sé rekinn þurfi ekki að sæta henni en sá sem sé þvingaður til að segja upp þurfi að sæta niðurfellingu. Að mati Y byggir nefndin úrskurð sinn á einhliða og alröngum upplýsingum sem mest eru hálfkveðnar vísur. Hann tekur fram að hann hafi í raun ekkert val átt varðandi starfslok sín, þó kostirnir hefðu verið tveir og hefðu báðir sömu endalok í för með sér. Ef hann hefði ekki sagt upp sjálfur hefði hann í fyrsta lagi tapað óunnum uppsagnarfresti, í öðru lagi hefðu verkefni hans orðið allt önnur en áður og verri og í þriðja lagi, sem vegið hafi þyngst, fyrirsjáanleg hefði verið daufleg þriggja mánaða vist undir glottandi athugasemdum, því ekkert hefði orðið eins og það var áður. G sé vel þekktur fyrir það að níðast á starfsmönnum sem eru að hætta og gera jafnan lítið úr þeirra málflutningi, ýmist með þjósti eða gríni, einkum eftir að ljóst sé að tekist hefur að bola enn einum óæskilegum frá. Hann hafi ítrekað orðið vitni að því sjálfur og líkað stórilla.
Y segist vilja leiðrétta nokkuð af því sem haft sé eftir fulltrúa vinnuveitandans. Ljóst sé að langflest starfsfólk viðkomandi stofnunar myndi ekki taka undir þann boðskap sem þarna er á borð borinn um samstarfsörðugleika. En á hinn bóginn hafi engum dulist að á milli hans og þeirra G og Þ hafi staðið langvinnur ágreiningur í mjög mörgum málum. Ágreiningur af þessi tagi hafi verið tilkominn löngu áður en hann eða Þ komu til starfa, og hafi staðið milli G og annarra starfsmanns sem hurfu á braut hver af öðrum til annarra starfa, sumir fengu sig flutta í önnur störf innan sömu stofnunar, einkum í kjölfar skipulagsbreytinga í febrúar og mars árið 2001, aðrir kusu að finna sér annan starfsvettvang. Þetta megi best sannreyna á starfsmannaveltu deildarinnar sem hann starfaði í, með því að skoða starfsreynslu þessara tíu starfsmanna deildarinnar á þessum vinnustað og síðan hverjir hafi hætt þar störfum undanfarin þrjú ár. Þar séu einungis Á og G með langan starfsferil að baki. Hinir átta, hann meðtalinn, höfðu flest verið að læra á hlutina og flestir reyndar komið til starfa eftir að hann hóf störf. Í þriðja lagi er haft í fleirtölu að starfsfólk hafi hótað að hætta. Það hafi aðeins verið einn maður sem hótaði að hætta og þar hafi aðeins verið um yfirskin að ræða. Að því er varðar áminningu um betri tímasókn, þá beri fyrst að taka það fram, að um laun, aðstæður, starfskjör og annað sem tengdist ytri umbúnaði starfsins hafi hann aldrei rætt um við yfirmann sinn, Á, því þau mál voru í höndum forstöðumanns stofnunarinnar. Hann hafi einungis rætt við yfirmann sinn um verkefni og vinnubrögð, árangur og allt sem því tengdist, alltaf í góðri sátt og oft og iðulega í náinni og góðri samvinnu, sem hann efar ekki að óreyndu að hún sé tilbúin til að staðfesta. Af hans hálfu hafi aldrei borið skugga á það farsæla samstarf og hann hafi aldrei orðið var við annað af hennar hálfu, þótt hún kæmi reyndar stöku sinnum undir það síðasta með þau skilaboð af forstöðumannafundum, þar sem yfirmenn deilda og forstöðumaður hittast reglubundið í hverri viku, að hann þyrfti að skoða tímasóknina betur. Og það hafi ekki eingöngu gilt um hann heldur fleiri starfsmenn. Það sé á hinn bóginn alveg laukrétt að ágreiningur, eða ósamstæð viðhorf öllu heldur, hafi verið til staðar frá upphafi milli hans og forstöðumanns stofnunarinnar. Ágreiningurinn milli hans og tveggja yfirmanna G og Þ, hafi snúist um ákaflega margt. Í grundvallaratriðum þó um verkefnaskipulag í víðum skilningi; um vinnulag og aðferðafræði; um tilskipanastíl og lítið samráð gagnvart þeim opinberu aðilum sem deildin var að þjóna um allt land og skemmdi augljóslega fyrir tilteknum verkefnum; um allt of lítið samráð og óskilvirka samvinnu milli samstarfsmanna, t.d. í ljósi eindregins og margítrekaðs vilja yfirmanns deildarinnar þar um; um verkefnahópa; um það að pukrast ekki með verkefni heldur segja frá því sem verið var að vinna að svo aðrir starfsmenn gætu tekið mið af því og komið í veg fyrir tvíverknað og vandræði; um eðlilega og sjálfsagða upplýsingamiðlun milli samstarfsmanna og ekki síst milli margra ólíkra aðila innan stjórnsýslunnar og utan, sem þurfti að eiga samstarf og samráð við um tiltekin verkefni, einkum til að forðast misskilning og spara tíma; um almenna kurteisi; um velvilja, árangur og óeðlilega samkeppni um verkefni milli starfsmanna; og síðast en ekki síst um heimildir sem hann hafi allt í einu átt að skorta til að vinna að tilteknum starfsverkefnum sem hann hafði þá þegar unnið að um tveggja ára skeið í góðu samráði og náinni og góðri samvinnu við sinn ágæta yfirmann, Á, og allir hafi mætavel vitað um og hafi um það bil verið að skila umtalsverðum árangri með tvennum hætti á sviði rafrænnar stjórnsýslu.
Y segir að lokum að hann sé þess fullviss að sé sanngirni gætt, úrskurðað verði á grundvelli málsatvika sem sannreynd séu og allt skoðað með hlutlausum hætti, þá hljóti nefndin að komast að annarri niðurstöðu, nema lög eða reglugerð með stoð í lögum kveði beinlínis á um annað.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna. Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglugerð nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta en þar segir: Ef umsækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, séu starfslok tilkomin vegna einhverra eftirtalinna atvika:
a. Maki umsækjanda hafi farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. Uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar.
Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.
Samkvæmt 18. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 á umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem á kröfu um laun í uppsagnarfresti á hendur vinnuveitanda sem ekki hefur verið úrskurðaður gjaldþrota ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en uppsagnarfrestur er liðinn.
2.
7. gr. reglugerðar nr. 545/1997 fjallar um undanþágu frá beitingu 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar. Greinin hefur verið skýrð þröngt og eru í raun fáar ástæður sem teljast gildar ef starfslok eru tilkomin vegna þess að starfi hefur verið sagt lausu, eða launþegi hefur misst vinnu af ástæðum sem hann telst sjálfur átt sök á. Samkvæmt vinnulöggjöfinni heyra starfmenn undir boðvald yfirmanna sinna. Ef sýnt þykir að ástæða uppsagnar starfsmanns eða starfslok sé sannanlega sú að starfsmaður hafi ekki unnið í samræmi við vilja yfirmanns síns og/eða gegn leiðbeiningum og fyrirmælum hans og er rekinn fyrir vikið, þá telst hann hafa misst vinnu af ástæðum sem hann á sjálfur sök á. Ef vinnuveitandi hefur hins vegar rekið starfsmann vegna þess að um persónulegt ósætti er að ræða milli þeirra þá leiðir slíkt ekki til niðurfellingar bótaréttar. Að sögn kæranda var ágreiningur milli hans og yfirmanna hans ekki persónulegt heldur snerist hann um ákaflega margt er varðaði vinnuna, aðallega þó verkefnaskipulag í víðum skilningi, vinnulag og aðferðafræði, tilskipanastíl, lítið samráð og óskilvirka samvinnu milli samstarfsmanna vegna bágrar upplýsingarmiðlunar. Ekki skiptir máli hvort um sé að ræða þvinguð starfslok, þ.e. að starfsmaður sé þvingaður til að segja upp sjálfur ellegar að honum sé sagt upp störfum. Það sem stendur á vinnuveitandavottorði hefur því ekki úrslitaáhrif heldur raunverulegar ástæður starfsloka. Kærandi segir í bréfi sínu að starfsmannavelta deildarinnar sem hann vann í hafi verið óvenju mikil og að hún hafi stafað af stjórnunarháttum yfirmanns deildarinnar. Haft var samband við starfsmannastjóra stofnunarinnar sem vildi ekki staðfesta þessa fullyrðingu. Þvert á móti sagði hann starfsmannaveltu vera með minna móti, eða um 4-8% sem ekki þætti mikið. Úrskurðarnefnd hefur farið yfir andmæli kæranda. Að mati hennar breyta þau ekki niðurstöðu fyrri úrskurðar. Að teknu tilliti til ofangreinds er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að ástæður þær sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum séu ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997. Með vísan til framanritaðs er fyrri úrskurður úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta um niðurfellingu bótaréttaar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 staðfestur.
Úrskurðarorð:
Úrskurður úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 6/2004 frá 6. febrúar 2004 í máli Y um staðfestingu á ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgrsvæðið frá 22. desember 2003 um niðurfellingu bótaréttar Y í 40 bótadaga skv. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysisbætur, er staðfestur.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka