Ákvörðun um 77% bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings felld úr gildi. Bótaréttur ákvarðast 96%.
Nr. 25 - 2004
Úrskurður
Hinn 20. apríl 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 25/2004.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum að bótaréttur Y væri 77%. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli vinnuveitandavottorðs dags. 2. mars 2004 frá G ehf., svo og 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 316/2003 um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði, þar sem kveðið er á um að sjóðfélagi, sem greiðir mánaðarlega stargreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein, teljist vera í hlutastarfi.
2.
X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi, dags. 27. mars 2004. Í bréfi sínu segist hann hafa verið í um 80% sjálfstæðri starfsemi tímabilið 27. mars 203 til 29. september 2003 samtímis því að hann var í 20% launþegavinnu. Hann hafi hætt sjálfstæðri starfsemi þann 29. september s.l. Tímabilið 15. nóvember 2002 til 27. mars 2003 hafi hann verið á atvinnuleysisbótum. Á meðan hann var með sjálfstæða starfsemi hafi honum verið ómögulegt að ná tekjum sem svari til reglum um reiknað endurgjald. Heildartekjur hans af sjálfstæðri starfsemi hafi aðeins verið 885.000 á tímabilinu og hafi hann gert upp öll gjöld af starfseminni samkvæmt því. Það sé mjög hörð samkeppni hjá verktökum í málningarvinnu, sem geri það að verkum að útilokað sé að ná viðmiðunartekjum fyrir verktaka sem starfa aðeins tímabundið. Hann hafi skilað öllum gögnum og skilji ekki hvers vegna hann er látinn sæta skerðingu atvinnuleysisbóta niður í 77%.
3.
Fyrir liggur í málinu vinnuveitandavottorð dags. 2. mars 2004 frá G ehf. Þar kemur fram að Y starfaði hjá fyrirtækinu tímabilið 27. mars 2003 til 25. febrúar 2004 er honum var sagt upp vegna samdráttar. Tímabilið 27. mars 2003 til 27. september var starfshlutfall hans 20% og tímabilið 27. september 2003 til 25. febrúar 2004 var hann í 100% starfshlutfalli. Tímabilið sem hann var í 20% hlutastarfi rak hann einnig sjálfstæða starfsemi við húsamálun. Samkvæmt reglum fjármálaráðherra um reiknað endurgjald fellur starfsemi hans undir flokk D(2). Samkvæmt viðmiðunarreglum átti hann að reikna sér 215.000 í endurgjald á mánuði miðað við 100% vinnu og greiða af því 5.73% í tryggingagjald eða kr. 12.320 á mánuði. Hann fékk heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald og greiddi kr. 8.965 í tryggingagjald á mánuði. Samkvæmt útskrift frá skattstjóra er hann í skilum með greiðslu tryggingagjalds. Fram kemur að hann afskráði sjálfstæða starfsemi sína þann 5. nóvember 2003 og er lokadagsetning skv. yfirlýsingu frá skattstjóra 30. september 2003.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 eiga sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr sjóðnum samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laga nr. 12/1997 sbr. 5. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 316/2003 um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði er skilyrði að þeir hafi á síðustu tólf mánuðum áður en þeir stöðvuðu rekstur eða urðu atvinnulausir staðið mánaðarlega í skilum með greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi í a.m.k. þrjá mánuði áður en rekstur stöðvaðist, en hlutfallslega lengur hafi tekjur af rekstri verið lægri en viðmiðun reiknaðs endurgjalds í hlutaðeigandi starfsgrein samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra.
Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 316/2003 telst sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein vera í fullu starfi. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar telst einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaháðherra í viðkomandi starfsgrein vera í hlutastarfi. Starfshlutfall hans ákvarðast af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sjóðfélaga og viðmiðunarfjárhæðar.
2.
Samkvæmt upplýsingum skattstjóra og auglýsingu fjármálaráðherra nr. 7/2003 um reiknað endurgjald fyrir tekjuárið 2003 fellur starfsemi kæranda undir flokk D(2). Samkvæmt viðmiðunarreglum átti hann að reikna sér 215.000 í endurgjald á mánuði miðað við 100% vinnu og greiða af því 5.73% í tryggingagjald eða kr. 12.320 á mánuði. Hann fékk heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald og greiddi kr. 8.965 í tryggingagjald á mánuði í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum sem samsvarar 73% starfshlutfalli. Samhliða var kærandi í 20% starfshlutfalli sem launþegi. Einnig kemur fram að kærandi var í 100% starfshlutfalli sem launþegi í fimm mánuði á síðustu tólf mánuðum. Bótaréttur kæranda reiknast því 93% í sex mánuði og 100% í fimm mánuði og einn mánuður fellur undir geymdan bótarétt í 100% bótahlutfalli. Samtals gerir þetta 96% bótarétt kæranda. Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar um 77% bótahlutfall kæranda. Bótaréttur kæranda ákvarðast 96% með vísan í 4. tölul. 2. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar og 6. gr. rgl. 316/2003 um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um 77% bótahlutfall Y er felld úr gildi. Bótaréttur kæranda ákvarðast 96% með vísan í 4. tölul. 2. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar svo og 3. gr. sömu laga um geymdan bótarétt og 5 og 6. gr. rgl. 316/2003 um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka