Synjun á umsókn um atvinnuleysisbætur vegna óvinnufærni. Staðfest.
Nr. 26 - 2004

Úrskurður

 

Hinn 20. apríl 2004 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 26/2004.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 17. febrúar 2004 að synja umsókn X frá 2. janúar 2004 um atvinnuleysisbætur.  Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli  1. gr. og 2. mgr. 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, svo og 1. gr. b og 2. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997, en þar er kveðið á um að skilyrði bótaréttar úr Atvinnuleysistryggingasjóði er að umsækjandi sé fullfær til vinnu.

 

2.

X kærði ákvörðun út­hlutunar­nefndar til úr­skurð­ar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta með bréfi, dags. 26. mars 2004.  Í bréfi sínu segist hún síðast hafa fengið laun frá  fyrrum vinnuveitanda sínum, Y fyrir þremur mánuðum.  Hún hafi þá átt von á að fara á atvinnuleysisbætur og hafi hún fyrst stimplað sig þann 2. janúar 2004.  Hún sé nú í mati til örorkulífeyris en það ferli muni víst taka alls 8-10 vikur.    Henni sé gert að greiða opinber gjöld m.m., en hafi hvorki haft laun né bætur í þrjá mánuði. Henni fyndist eðlilegast að hún fengi atvinnuleysisbætur þar til hún komist á örorkulífeyri og vonast til að nefndin leiðrétti ákvörðun úthlutunarnefndar.

 

3.

            Fyrir liggur í máli þessu mat trúnaðarlæknis Atvinnuleysistryggingasjóðs á vinnufærni X dags. 10. febrúar 2004.  Þar kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði heilsugæslulæknis X sé hún vinnufær til starfs í sínu fagi sem er bókasafnsfræði.   Einnig kemur fram að X telur sig sjálfa vinnufæra.  Í samtali trúnaðarlæknis við heilsugæslulækninn taldi hann að hún ætti að geta unnið sem bókasafnsfræðingur við aðstæður sem henni væri hagstæðar, en þær aðstæður væru ekki á Y. Trúnaðarlæknirinn ræddi við starfsmannastjóra Y sem tjáði honum að hann teldi X óvinnufæra til að starfa á Y og að henni hafi verið sagt upp störfum vegna mikilla fjarvista sökum veikinda síðustu fimm starfsárin.  Samkvæmt mati trúnaðarlæknis telur hann líklegt að X geti unnið við verndaðar aðstæður, en fremur ólíklegt að hún geti skilað fullum afköstum vegna veikinda sé miðað við vinnuframlag hennar undanfarin ár.  Það er niðurstaða trúnaðarlæknis að í tilviki X sé fremur um að ræða veikindi en atvinnuleysi og er það mat hans að X eigi rétt á örorkubótum sé tekið mið af aldri hennar og vinnugetu undanfarin ár.  Einnig hefur komið fram að X hefur sótt um örorkulífeyri.  Hún sé nú í mati og sækir um atvinnuleysisbætur þar til því ferli sé lokið.

 

 

Niður­staða

 

1.

Í 1. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, svo og 1. gr. b og 2. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 er kveðið á um að skilyrði bótaréttar úr Atvinnuleysistryggingasjóði er að umsækjandi sé fullfær til vinnu.

1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 hljóðar svo:

Launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem verða atvinnulausir eiga rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu. 

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur enginn öðlast bótarétt vegna atvinnuleysis sem stafar af veikindum hans.  Í 4. mgr.4. gr. er svæðisvinnumiðlun heimilt að leita álits trúnaðarlæknis Atvinnuleysistryggingasjóðs á vinnufærni umsækjanda.

 

2.

Samkvæmt áliti trúnaðarlæknis Atvinnuleysistryggingasjóðs er kærandi ekki fullfær til vinnu og er það mat hans að fremur sé um að ræða veikindi en atvinnuleysi.  Ennfremur er það mat trúnaðarlæknis að sé tekið mið af aldri kæranda og vinnugetu undanfarin ár eigi hún rétt á örorkulífeyri vegna heilsubrests.  Að sögn kæranda er hann nú í mati til örorkulífeyris en vill fá atvinnuleysisbætur þar til því ferli er lokið eða í 8-10 vikur.  Samkvæmt lögum atvinnuleysistryggingar er það skilyrði bótaréttar úr Atvinnuleysistryggingasjóði að umsækjandi sé í atvinnuleit og fullfær til vinnu.  Hvorugt virðist eiga við um kæranda.  Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur með vísan til1. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, svo og 1. gr. b og 2. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 17. febrúar 2004 um synjun á umsókn X um atvinnuleysisbætur með vísan til 1. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, svo og 1. gr. b og 2. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997, er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

formaður

 

Árni Benedikts­son                                            Benedikt Davíðs­son

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni