Ákvörðun um synjun á umsókn um atvinnuleysisbætur fyrir óstimplaða daga felld úr gildi vegna misskilnings við upplýsingagjöf um bótarétt.
Nr. 27 - 2004
Úrskurður
Þann 20. apríl 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 27/2004.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum þann 2. mars 2004 umsókn X frá 24. febrúar 2004 um atvinnuleysisbætur. Jafnframt ákvað nefndin að synja ósk X um atvinnuleysisbætur fyrir óstimplaða daga tímabilið 1. janúar til 23. febrúar 2004 vegna rangra upplýsinga um rétt námsmanna til atvinnuleysisbætur. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að ekki verði séð annað en að X hafi fengið réttar upplýsingar um bótarétt sinn miðað við gefnar forsendur.
2.
X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 23. mars 2004. Í bréfi sínu segist hún hafa lagt fram bréf til úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 þann 27. febrúar s.l. og farið fram á að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá áramótum 2004 til 24. febrúar s.l. Hún segir að þann 4. mars s.l. hafi henni borist bréf frá úthlutunarnefnd þar sem segir að ósk hennar um atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 24. febrúar s.l. sé hafnað þar sem hún hafi fengið réttar upplýsingar um bótarétt sinn miðað við gefnar forsendur. Jafnframt hafi henni verið tjáð að hún verði framvegis skráð með 80% bótarétt sökum þess að hún sæki sitt síðasta fag til að ljúka námi frá Háskóla Íslands í júní n.k., en nám hennar nú jafngildi 20% námshlutfalli. Hún segist fallast á að fá 80% bætur af þessum sökum, en að hún sætti sig ekki við að fá ekki bætur fyrir tímabilið janúar til 24. febrúar s.l. Hún hafi leitað til VR í árslok 2003. Henni hafi verið tjáð að hún ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum þar sem hún væri enn í námi. Hún hafi talið svör þessi góð og gild á þessum tíma. Skilningur VR á námi hennar hafi hins vegar ekki verið réttur. Hún stundi nám í sínu síðasta fagi við Háskóla Íslands og ljúki náminu í vor. BS ritgerð sé lokið og því sé hún að leita sér að fullu starfi. Þetta fag væri utanskóla og án mætingaskyldu og því væri hún fullfær um að stunda 100% vinnu. Af þessum sökum eigi hún rétt á atvinnuleysisbótum sem henni var áður neitað um. Hún hafi verið skráð í atvinnuleit frá og með 24. febrúar s.l. Sökum þeirra upplýsinga sem hún fékk frá VR hafi hún misst úr 45 daga á atvinnuleysisbótum og fer þess á leit við úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta að þetta verði leiðrétt og að hún verði réttilega skráð á atvinnuleysisbætur frá áramótum 2003/2004 eins og upphaflega stóð til. Samkvæmt bréfi X til úthlutunarnefndar dags. 27. febrúar s.l. var hún í fullu námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands á haustmisseri 2003 og á fullum námslánum. Nú á vormisseri sé hún hins vegar aðeins í einu fagi þar sem ekki sé mætingaskylda. Hún eigi ekki rétt á námslánum þar sem sýna þurfi fram á 75% nám, en samvæmt 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta eigi hún þess í stað rétt á atvinnuleysisbótum. Hún hafi verið atvinnulaus og án nokkurra tekna frá áramótum 2003/2004.
3.
Í máli þessu liggur fyrir bréf úthlutunarnefndar dags. 13. apríl 2004. Þar segir að X hafi fengið réttar upplýsingar þegar hún spurði um rétt námsmanna til atvinnuleysisbóta. Hefði hún sagt starfsmanni að hún væri hætt námi en ætti eftir að ljúka einu fagi og hefði enga mætingaskyldu hefði hún fengið nánari svör um bótarétt sinn. Úthlutunarnefndin geti því ekki séð að upplýsingaskylda starfsmanna nefndarinnar hafi í nokkru brugðist né heldur geti úthlutunarnefnd ákveðið að X eigi bótarétt á því tímabili sem hún stimplar sig ekki hjá vinnumiðlun. Að auki sé skilningur X á 80% bótarétti hennar rangur. Bótahlutfall hennar hafi ekkert með nám hennar að gera, heldur sé það byggt á greiddu tryggingagjaldi samkvæmt reglugerð um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 316/2003.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem verða atvinnulausir rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
Samkvæmt 5. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 eiga námsmenn ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi sem stundað er á venjulegum dagvinnutíma, nema annað leiði af samningi um starfsleitaráætlun, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir.
Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysisbætur er þeim sem ekki hafa gert starfsleitaráætlun á vegum svæðisvinnumiðlunar skylt að láta skrá sig vikulega hjá viðurkenndum skráningaraðila. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar varðar það missi bóta fyrir þá daga sem liðnir eru frá síðustu skráningu ef hinn atvinnulausi skráir sig ekki á tilskyldum degi.
2.
Kærandi sækir um atvinnuleysisbætur með umsókn dags. 24. febrúar 2004. Frá sama tíma skráir kærandi sig reglulega hjá svæðisvinnumiðlun í samræmi við 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt upplýsingum frá úthlutunarnefnd spurðist kærandi fyrir um bótarétt sinn um áramótin 2003/2004. Henni var tjáð að samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 545/1997 eigi námsmenn ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi sem stundað er á venjulegum dagvinnutíma. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni úthlutunarnefndar minntist kærandi ekki á að hann hefði lokið námi utan eins fags sem stundað væri utanskóla og engin mætingaskylda væri samfara. Hefði kærandi gert það hefði hann fengið upplýsingar um bótarétt sinn í samræmi við það.
Kærandi lauk námi í Háskóla Íslands um áramótin 2003/2004 utan eins fags sem stunda átti utanskóla engin mætingaskylda var samfara. Hann leitaði á þessum tímamótum til stéttarfélags síns og spurðist fyrir hjá úthlutunarnefnd um bótarétt sinn. Vegna misskilnings fékk hún rangar upplýsingar um rétt sinn til atvinnuleysisbóta og skráði sig samkvæmt því ekki að svo stöddu hjá vinnumiðlun. Það var ekki fyrr en hann hafði fengið réttar upplýsingar eða þann 24. febrúar s.l. er kærandi hóf skráningu skv. 2. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og var réttur hans til atvinnuleysisbóta miðaður við það tímamark. Með vísan til málsatvika er það mat úrskurðarnefndar að ósanngjarnt sé að kærandi sé látinn bera hallann af því að hann fékk rangar upplýsingar vegna misskilnings um bótarétt hans.
Samvkæmt ofansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri úr gildi beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 2. mars 2004 um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur fyrir óstimplaða daga tímabilið 1. janúar til 24. febrúar 2004.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 2. mars 2004 um synjun á umsókn X um atvinnuleysisbætur fyrir óstimplaða daga með vísan til 2. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 er felld úr gildi vegna misskilnings við upplýsingagjöf um bótarétt hennar.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Bentsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka