Ferilskrá

Í atvinnuleit er markvisst unnið að því að koma sér á framfæri á vinnumarkaðnum og má líkja þessu við markaðssetningu á sjálfum sér. Ferilskráin og kynningarbréfið eru aðalmarkaðstækin í þessu ferli og skiptir því miklu máli að það sé vandað til verka við gerð þeirra.

Það borgar sig að eyða góðum tíma í ferilskrána, huga þarf vel að efnisinnihaldi, uppsetningu og málfari. Uppsetning þarf að vera skýr og upplýsingar hnitmiðaðar. Forðast skal beinan texta. Ferilskráin þarf að vera grípandi og forvitnileg þannig að ráðningaraðila langi til að hitta umsækjandann eftir að hafa lesið hana. Hún getur því verið það tæki sem markar fyrstu tengsl milli umsækjanda og ráðningaraðila og getur góð ferilskrá ráðið úrslitum um hvort umsækjandi fái starfið.

Ferilskráin er stutt kynning á umsækjanda þar sem ákveðnar grunnupplýsingar koma fram. Lengd hennar er yfirleitt 1 til 2 blaðsíður. Líkja má upplýsingum sem þurfa að vera í ferilskrá við pýramída, einstaklingurinn er undirstaðan, fyrir ofan kemur menntun svo starfsreynsla og efst eru aðrir persónulegir þættir líkt og hæfni, þekking og áhugamál.  Til hliðar eru svo upplýsingar um meðmælenda sem vísað er á til að gefa umsögn um umsækjandann.

Atvinnuleitendum hjá Vinnumálastofnun býðst ráðgjöf og/eða námskeið í gerð ferilskrár. Hafðu samband við þína þjónustuskrifstofu til að sjá nánar námskeið. Smelltu  hér til að fá yfirlit yfir námskeiðin á hverju þjónustusvæði.


Í ferilskránni þurfa eftirfarandi upplýsingar að koma fram:

Persónuupplýsingarnar geta verið mismunandi ítarlegar, mikilvægt er þó að þar komi fram nafn, heimilisfang, virkt símanúmer og netfang til að ráðningaraðili geti náð í umsækjandann.
Upplýsingar um menntun. Heiti skóla og náms, gráða og útskriftarár. Ef einstaklingur hefur klárað framhaldsnám þá er óþarfi að nefna grunnskóla ef námi hefur ekki verið lokið þá er hægt að skrifa ólokið fyrir aftan heiti náms. Byrja að skrá það nám sem síðast var lokið og bæta við upplýsingum um námið og viðfangsefni lokaritgerðar ef einhver er. Hægt er að nefna námskeið hér en einnig er hægt að láta öll námskeið í sér kafla.

Upplýsingar um starfsreynslu. Vinnustaður, starfsheiti og tímabil. Ágætt er að greina frá helstu verkefnum og ábyrgð í starfi. Byrja að skrá það starf sem einstaklingur sinnir núna eða sem hann sinnti síðast. Aðrar upplýsingar. Einstaklingur velur sjálfur hvað hann skráir í ferilskrána en algengast er að greina frá tungumála- og tölvukunnáttu, félagsstörfum, áhugamálum og greinaskrifum. Sumir velja að skrifa stutta persónulýsingu og setja þessar upplýsingar inn í þann texta. Það þarf bara að huga að því að hafa upplýsingarnar ekki of ítarlegar.

Upplýsingar um meðmælendur. Nafn, staða og símanúmer. Mjög gott er að hafa tvo umsagnaraðila. Æskilegt er að benda á næsta yfirmann en einnig er til dæmis hægt að hafa samstarfsmenn, kennara eða viðskiptavini. Meðmælendur mega ekki vera fjölskyldumeðlimir eða vinir. Ef atvinnuleit á að fara leynt þarf að koma fram að meðmæla skuli leita þegar búið er að hafa samráð við umsækjandann.

Góð ráð varðandi ferilskránna:

 • Gott er að eiga vandaða ferilskrá sem hægt er að aðlaga eftir þörfum.
 •  Það er ekki nauðsynlegt að skrá allt nám/námskeið eða öll störf sem einstaklingur hefur gegnt. Aðeins það sem skiptir máli fyrir starfið sem sótt er um hverju sinni.
 • Ef um margar, stuttar, tímabundnar ráðningar í sambærileg störf er að ræða þá er hægt að draga þær saman og greina frá þeim á einum stað.
 • Dragðu fram styrkleika þína sem gætu gagnast í starfinu sem sótt er um. Gefðu hnitmiðað og stutt dæmi sem staðfesta það.
 • Lýstu markmiðum þínum varðandi starfsþróun þína og hvaða þætti þú vilt þjálfa.
 • Ef einstaklingur hefur ekki mikla reynslu úr atvinnulífinu er hægt að segja aðeins frá sjálfum sér, hvað hann hefur fengist við og hver helstu áhugamálin eru. Gera grein fyrir hvers vegna hann gæti skilað góðu starfi, t.d. eru einhver dæmi sem sýna að hann geti tekið ábyrgð, geti unnið með öðrum eða að hann hafi ríka þjónustulund? Nauðsynlegt er að draga fram það sem getur vakið áhuga atvinnurekandans það þarf ekki að vera reynsla úr atvinnulífinu.
 • Allt sem er skráð í ferilskrána þarf að vera gert af heiðarleika og þarf umsækjandi að vera tilbúinn í viðtali að gera grein fyrir öllu því sem kemur fram. Ef umsækjandi hefur verið án atvinnu þarf hann að geta greint frá því hvers vegna hlé hefur orðið á starfsferlinum.
 • Mjög mikilvægt er að láta einhvern lesa ferilskrána vandlega yfir til að koma í veg fyrir innsláttar- eða stafsetningarvillur.
 • Gott er að vista bréfið með nafni umsækjandans eða kennitölu, helst sem pdf skjal.

Kynningarbréf

Kynningarbréfið er annað mikilvægt markaðstæki fyrir einstakling í atvinnuleit. Það er notað til að gera grein fyrir ástæðu umsóknar og koma til skila upplýsingum sem ekki koma fram í ferilskrá. Einnig er hægt að nýta það til að útskýra ákveðin atriði ferilskrár betur. Það fjallar þó ekki eingöngu um ágæti umsækjandans heldur er meginmarkmið þess að sannfæra ráðningaraðila hvað umsækjandi getur gert fyrir hann.

Gott er að huga að því að í sumum tilfellum byrjar atvinnurekandi á að lesa kynningarbréfið. Það þarf því að vanda sig við gerð þess líkt og við gerð ferilskráar.


Mikilvæg atriði varðandi kynningarbréfið

Efst í kynningarbréfinu eru upplýsingar um nafn, heimilisfang, síma og netfang sendanda. Því næst staður og dagsetning og loks heiti og heimilisfang fyrirtækisins sem umsóknin sendist til. Ef vitað er um nafn þess sem hefur með mannaráðningar að gera þá er nafn hans sett hjá nafni fyrirtækisins.

Í upphafi skal tilgreina nákvæmlega hvaða starf eða starfsvettvang verið er að sækja um. Ef um er að ræða starf sem hefur verið auglýst skal gera grein fyrir því hvar upplýsingar um starfið fengust og hvers vegna það vekur áhuga. Í framhaldi af því er mikilvægt að rökstyðja í stuttu og hnitmiðuðu máli hvers vegna umsækjandi telur sig hæfan til að gegna starfinu og með hvaða hætti hann telur að fyrirtækið eigi eftir að hafa gagn af störfum hans. Það er kostur ef umsækjandi getur nefnt kunnáttu eða reynslu sem gerir hann sérstaklega vel hæfan fyrir viðkomandi starf.

Að lokum er svo ágætt að nefna áhuga umsækjandans á að fá viðtal til að geta gert betur grein fyrir umsókninni. Bréfinu lýkur með stuttri vinsamlegri kveðju og undirskrift. Fyrir neðan undirskriftina eru talin upp þau fylgiskjöl sem send eru með þ.e. ferilskrá, námsgögn o.fl., eftir því sem við á hverju sinni.

Góð ráð varðandi Kynningarbréfið

 • Gott er að eiga vandað kynningarbréf sem hægt er að aðlaga eftir hverju starfi og fyrirtæki.
 • Mikilvægt er að allar upplýsingar séu réttar og engar innsláttar- eða stafsetningarvillur. Það er nefnilega erfitt að breyta fyrstu hughrifum sem umsóknin vekur!
 • Gott er að vista bréfið með nafni umsækjandans eða kennitölu, helst sem pdf skjal.
 • Áherslan í bréfinu á að vera á starfið sem sótt er um, ekki það sem umsækjandi hefur gert í lífinu. Gæta þess að nota ekki of mikið „ég“.
 • Kynningarbréf er yfirleitt hálf til ein blaðsíða.
 • Nauðsynlegt er að draga fram þau atriði sem mæla með umsækjandanum í starfið. Það þarf að svara hvernig hann uppfyllir þær kröfur sem starfið gerir.
 • Mikilvægt er að enda bréfið á kurteislegan hátt og hafa það undirritað

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni